Virkilega stoltur af strákunum

Song Min-kyu í baráttunni við Damir Muminovic í dag.
Song Min-kyu í baráttunni við Damir Muminovic í dag. AFP/Jung Yeon-je

„Ég er svekktur með að hafa tapað leiknum,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við KSÍ TV, eftir 0:1-tap liðsins gegn Suður-Kóreu í vináttulandsleik í Hwaseong í Suður-Kóreu í dag.

„Tilfinningin er svipuð og eftir tapið gegn Sádi-Arabíu í Abú Dabí. Mér fannst við vera nokkuð þéttir og það var mikill dugnaður í liðinu. Við vorum duglegir að loka svæðunum sem Suður-Kóreumennirnir vildu sækja í. Við vorum líka hugrakkir í pressunni okkar og fengum fjögur ágætis færi eftir góða pressu,“ sagði Arnar.

Liðin mættust einnig í vináttulandsleik í Antalya í Tyrklandi í janúar á þessu ári en þá hafði Suður-Kórea betur, 5:1.

„Ég er virkilega stoltur af strákunum eftir þessa níu daga með þeim þessi leikur sýndu okkur það að þeir eru búnir að stíga stórt skref í sumar með sínum félagsliðum,“ sagði Arnar meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert