Valur upp í þriðja sæti

Hólmar Örn Eyjólfsson fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum.
Hólmar Örn Eyjólfsson fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum. mbl.is/Óttar Geirsson

Valur og KA mættust á Hlíðarenda í 6. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn endaði með 3:1 sigri Valsmanna sem þýðir að liðið er komið í þriðja sæti með 11 stig. KA situr hins vegar í 11. sæti með aðeins tvö stig eftir sex umferðir.

Valsmenn byrjuðu leikinn betur og eftir aðeins fjórar mínútur kom fyrirliðinn, Hólmar Örn Eyjólfsson, þeim yfir með frábærum skalla eftir fyrirgjöf frá Gylfa Þór Sigurðssyni. 

Á 41. mínútu fór Sveinn Margeir niður í teig Valsmanna og benti Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, á punktinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem byrjaði sinn fyrsta leik á tímabilinu í dag, fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. 

Aðeins mínútu eftir mark KA, braut Hrannar Björn Steingrímsson á Aroni Jóhannssyni og fengu Valsmenn víti. Gylfi Þór steig upp og tók vítið en Steinþór Már Auðunsson fór í rétt horn og varði. Annar leikurinn í röð sem hann ver víti en hann varði víti í leik liðsins gegn KR í síðustu umferð.

1:1 var staðan í hálfleik. 

Seinni hálfleikur fór rólega af stað og skiptust liðin á að vera með boltann. Á 56. mínútu var það Patrick Pedersen sem kom Valsmönnum yfir eftir flotta fyrirgjöf frá Lúkasi Loga Heimissyni. 

Patrick Pedersen skoraði sitt annað mark í leiknum á 64. mínútu og kom Valsmönnum þar með í 3:1. Hann er því með fimm mörk á þessu tímabili eftir sex leiki í deildinni. 

KA-menn reyndu eins og þeir gátu að minnka muninn en það gekk ekki og endaði leikurinn 3:1 fyrir Val.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 3:1 KA opna loka
90. mín. Jakob Franz Pálsson (Valur) á skot yfir Lætur vaða af löngu færi og er skotið yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert