Williams segir samning við Button „skotheldan“

Liðsstjórinn Frank Williams segir nýgerðan samning sinn við Jenson Button um að keppa fyrir Williams á næsta ári vera „skotheldan“. Hafnar hann staðhæfingum BAR-liðsins um að Button sé bundinn því liði áfram.

Í ljósi yfirlýsinga BAR um hið gagnstæða sagði Williams við blaðamenn í dag að hann væri sannfærður um ágæti samningsins og kvaðst styðjast við traust lögfræðilegt álit í því efni.

„BAR missti af tækifærinu á að halda í Jenson og ég hef engar efasemdir um að hann muni keppa fyrir Williams á næstu tveimur árum - eins og ökuþórinn kýs sjálfur,“ sagði Williams.

Hann segir lið sitt hafa staðfest samkomulag við Button nokkrum dögum fyrir þýska kappaksturinn í Hockenheim, eftir að umboðsmenn Buttons hefðu haft samband við hann og sagt honum af tækifærinu.

„Við vildum hefja prívat viðræður við BAR til að fara í gegnum öll samningsatriði en BAR hefur slegið boltann úr höndum okkar, farið í fjölmiðla, og við höfum því neyðst til að útskýra okkar stöðu,“ segir Williams.

Frank Williams segist hafa sett sig í samband við BAR-stjórann David Richards rétt eftir að hann hefði átt að hafa fengið tilkynningu um samkomulagið og lagt til að þeir ræddu málin í kyrrþey.

„Við töldum engar líkur á því að geta ráðið Button en ég hef fengið tilboð af þessu tagi áður og sem keppnislið er ekki annað hægt en taka því,“ játaði Williams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert