BAR segir samningsréttarráðið staðfesta samning sinn við Button fyrir 2005

Samningsréttarráð Formúlu-1 (CRB), óháð nefnd svissneskra lögfræðinga, hefur staðfest að BAR hafi samning um að Jenson Button keppi fyrir liðið á næsta ári, 2005.

Kemur þetta fram í tilkynningu sem BAR-liðið sendi frá sér í dag. Þar segir að CRB-ráðið hafi staðfest skriflega í dag að samningur Jensons Button um að keppa fyrir BAR á næsta ári sé eini samningurinn sem færður hafi verið til bókar hjá ráðinu.

Ekki var frekar vikið að því í tilkynningu BAR hvaða afleiðingar þessi niðurstaða samningsréttarráðsins myndi hafa á deiluna sem komin er upp vegna þeirrar ákvörðun Buttons um að snúa baki við BAR og ganga fremur til liðs við Williams á næsta ári.

Þá hefur hvorki Button né umboðsmenn hans brugðist við en Williamsliðið segir yfirlýsingu BAR marklausa. Segir niðurstöðu CRB einungis staðfestingu á því að ráðið hafi fengið samningsskjöl frá BAR fyrir næsta ár í hendur en segi ekkert til um hvort ráðið samþykki samninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert