Williams leggur samning sinn við Button í gerð

Jenson Button fær senn að vita hvort hann getur farið …
Jenson Button fær senn að vita hvort hann getur farið til Williams á næsta ári. ap

Jenson Button fær að vita í lok september hvort hann getur keppt fyrir Williamsliðið á næsta ári í Formúlu-1 en þrætur um það hvort hann geti flutt sig frá BAR til Williams tóku nýja stefnu í vikunni.

Brottför Buttons frá BAR hefur verið í óvissu þar sem liðið hefur haldið því fram að það væri með gildan samning við hann á næsta ári. Á sama tíma hefur Williams þráast við að afhenda sinn samning við hann sérlegu samningsréttarráði Formúlu-1 (CRB).

Williams tilkynnti þó í gær að það hefði afhent ráðinu samninginn og staðfesti að baráttan um Button myndi komastí hámæli á næstu tveimur til þremur vikum.

„Það dróst á langinn að afhenda ráðinu samninginn þar sem heilmiklar viðræður hafa átt sér stað við aðila sem málinu tengjast þar sem reynt var að leysa deiluna í kyrrþey,“ sagði talsmaður Williams. Og bætti við að slíkt samkomulag hefði reynst ókleift.

Hann sagði að af þessum sökum yrðu aðilar málsins væntanlega kallaðir fyrir samningsréttarráðið á næstu tveimur til þremur vikum. „Ég held að báðir aðilar málsins telji stöðu sína vænlega, en það vantar að koma málum á hreint og þetta er rétti farvegurinn,“ sagði fulltrúi Williams.

BAR hefur heitið því að virða niðurstöðu ráðsins og hið sama gildir um Williams, segir talsmaðurinn. Fyrst þarf þó ráðið að úrskurða hvort það sé í verkahring þess að höggva á hnútinn í deilu liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert