Button fær að vita á miðvikudag hvoru megin hryggjar hann hafnar

Button hefur slegið í gegn í ár með BAR-liðinu.
Button hefur slegið í gegn í ár með BAR-liðinu. mbl.is/barf1

Jenson Button fær að vita síðdegis næstkomandi miðvikudag hvort hann keppir fyrir BAR eða Williams á næsta ári, en þann dag gerir samningsréttarráð Formúlu-1 ráð fyrir að kveða upp úr með það, að sögn talsmanns Williamsliðsins.

Lögmennirnir þrír sem ráðið mynda hlýddu á röksemdir fulltrúa BAR og Williams á hóteli í Mílanó á Ítalíu í dag frá klukkan 9 í morgun til 18:30 að staðartíma, klukkan 7-16:30 að íslenskum tíma.

Bæði lið gera tilkall til þjónustu Buttons á næsta ári og segjast bæði tvö með góðan og gildan samning við hann.

Talsmaðurinn segir við formúluvefinn Atlas að deilan um Button verði til lykta leidd er samningsréttarráðið tilkynnir liðunum tveimur um niðurstöðu sína síðdegis miðvikudaginn 20. október næstkomandi.

Ráðið mun ekkert láta frekar frá sér fara um niðurstöðuna en tilkynna liðunum tveimur um hana. Það verður síðan þeirra hvort þau geri niðurstöðuna opinbera, en það hafa þau sagst munu gera.

Bæði lið hafa heitið því að virða niðurstöðuna og láta þar við sitja; ekki láta frekar á málið reyna fyrir dómstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert