Alonso: engir erfiðleikar í millum þeirra Hamilton

Alonso (annar f.v.) æfir þolið með öðrum ökumönnum Renault.
Alonso (annar f.v.) æfir þolið með öðrum ökumönnum Renault. mbl.is/renault

Fernando Alonso segist harður á því að aldrei hafi verið neinir erfiðleikar í millum þeirra Lewis Hamilton er þeir voru samskipa hjá McLaren í fyrra.

Alonso fékk sig lausan frá McLaren í fyrrahaust, eftir aðeins eitt ár en samningar gerðu ráð fyrir að þar yrði hann a.m.k. til þriggja ára. Lenti honum nokkrum sinnum saman við liðsstjórann Ron Dennis.

Frammistaða Hamiltons á jómfrúarári sínu leiddi til kergju af hálfu Alonso sem ætlaðist til að njóta forgangs hjá liðinu sem tvöfaldur heimsmeistari ökuþóra.

Hann segist hafa farið frá McLaren vonsvikinn í garð tiltekinna einstaklinga en segir Hamilton ekki hafa verið einn af þeim.

„Það voru ekki allir sem ollu mér vonbrigðum, hver og einn hefur sín sérkenni,“ segir Alonso við spænska blaðið El Pais. „Meðal um eittþúsund starfsmanna McLaren eru frábærir liðs- og tæknimenn.  En, já, þar er líka fólk sem olli mér vonbrigðum og ég gat ekki starfað með. Hamilton var ekki einn þeirra.

Það var alltaf rætt um hann og búin til þessi úlfúð, en ég átti aldrei í neinum vandamálum gagnvart honum,“ segir Alonso, sem fór aftur til Renault að lokinni dvölinni hjá McLaren.

Og hann hreinsar Hamilton af allri sök varðandi skylmingar þeirra í bílskúrareininni í tímatökum ungverska kappakstursins. Í það skiptið hlýddi Bretinn ungi ekki liðsfyrirmælum um að hleypa Alonso fram úr í upphafi lokalotunnar. Svo virtist sem Alonso vildi refsa honum með því að tefja hann síðar í lokastoppi en fyrir bragðið gat Hamilton ekki lokið tímatökunni sem skyldi.

Alonso setti besta tímann en dómarar mótsins færðu hann aftur í sjötta sæti á rásmarki fyrir hindrunina. Meistarinn fyrrverandi segir sökina með öllu hafa legið hjá liðsstjórninni.

„Varðandi þjónustustoppið þá var það ekki honum [Hamilton] að kenna, það var liðsins að gera ráðstafanir og tryggja að ég legði af stað á undan gæti tekið aukalegan brennsluhring. En liðsstjórnin virtist ekki sýna málinu áhuga.

Það var eins og henni væri sama um mig og veru mína hjá liðinu. Bíll McLaren var góður og veitti mér möguleika á að sigra, en ég var sannfærður um að það gæti ég aldrei hjá þessu liði,“ segir Alonso um liðsstjórnina hjá McLaren.

Hamilton (t.v.) og Alonso sitja fyrir svörum í mótorheimili McLaren …
Hamilton (t.v.) og Alonso sitja fyrir svörum í mótorheimili McLaren í Spa í fyrra. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
Ron Dennis og Fernando Alonso meðan allt lék í lyndi …
Ron Dennis og Fernando Alonso meðan allt lék í lyndi hjá McLaren.
Alonso (t.h.) og Hamilton sem liðsfélagar hjá McLaren.
Alonso (t.h.) og Hamilton sem liðsfélagar hjá McLaren. ap
Hamilton bíður þess að Alonso aki af þjónustusvæðinu í Búdapest.
Hamilton bíður þess að Alonso aki af þjónustusvæðinu í Búdapest. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert