Schumacher „steinhissa“

Michael Schumacher fylgist með æfingum Massa í Jerez á Spáni …
Michael Schumacher fylgist með æfingum Massa í Jerez á Spáni í byrjun mars. reuters

Michael Schumacher, fyrrverandi heimsmeistari ökumanna í formúlu-1, bættist í dag í hóp þeirra sem gagnrýna nýjar reglur um titilkeppnina. Hann segist litla skynsemi sjá í þeim.

Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA) ákvað í fyrradag, að titil ökuþóra skuli sá hljóta sem flest mótin vinnur á keppnistíðinni í stað þess sem flest stig hlýtur.

Einhliða ákvörðun FIA um þetta efni hefur fallið í grýttan jarðveg og Schumacher hefur nú gengið í lið með öðrum fyrrverandi meistara, Fernando Alonso, sem gagnrýnt hefur nýju reglurnar líka.

Schumacher segist á því að nýju reglurnar séu ekki til bóta fyrir formúluna, sérstaklega ekki vegna þess hversu seint hún er fram komin. Hann segist hafa orðið „steinhissa“ á ákvörðun FIA.

Hann segist ekki sjá að breytingin, hvernig nýr meistari sé fundinn, sé til bóta. „Jafnvel þó mér finnist gott að gera meira úr hlut sigurvegara móts, fæ ég ekki séð skynsemi þess að sitja uppi með heimsmeistara sem hefur unnið færri stig en ökumaðurinn í öðru sæti í keppninni,“ segir Schumacher á heimasíðu sinni. 

Hann lýsir þar þeirri skoðun sinni, að Ferrariliðið sé í sterkri stöðu til að keppa um titla formúlunnar en segir litlu muna á bílum. Nema McLaren sem hann segir virka fremur slakt sem stendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert