Auðvitað allir óánægðir

Byrjunarlið Íslendinga í leiknum gegn Dönum.
Byrjunarlið Íslendinga í leiknum gegn Dönum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ólafur er með samning út þessa undankeppni og staða hans breyttist ekki við þennan leik á móti Dönum. Við höfum ekki riðið feitum hesti frá viðureignum okkar við Dani. Hvað varðar árangur landsliðsins þá held ég að við horfum til þess að upp er að koma ný kynslóð leikmanna sem við bindum miklar vonir við,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, við Morgunblaðið.

Árangur karlalandsliðsins í knattspyrnu er mörgum umtalsefni þessa dagana en uppskera þess í undankeppni EM hefur verið ansi rýr; af 15 mögulegum stigum hefur Ísland aðeins hlotið eitt sig og hefur ekki tekist að vinna í síðustu sjö leikjum sínum eða frá því það lagði Andorra í vináttuleik í maí á síðasta ári.

Er ekki forysta KSÍ óánægð með gengi liðsins?

„Það eru auðvitað allir óánægðir að við skulum bara vera með eitt stig en ég held að það sé ekki ósanngjarnt að segja við séum í einum erfiðasta riðlinum í undankeppninni. Landsliðið hefur því miður ekki náð góðum árangri í síðustu undankeppnum og hefur verið í öldudal og það er enginn ánægður með ástandið á liðinu. Það vantar ýmislegt upp á og þegar maður horfir til leiksins á laugardaginn þá sáust tæknilegir yfirburðir sem Danirnir hafa umfram okkur.“

Hvernig lagðist það í þig þegar landsliðsþjálfarinn gekk af blaðamannafundi eftir leikinn?

„Ég hef upplifað svona lagað áður og ég reikna með því að gera það aftur. Ég var ekki á þessum fundi og þetta er eitthvað sem Ólafur verður að útskýra sjálfur. Þetta er ekki til eftirbreytni en við sjáum þessa stóru úti í heimi ganga út af fundum og skamma blaðamenn. Ég skil vel að hann var grútspældur með úrslitin enda voru það allir eftir leikinn. Ég held að hann hafi brugðist svona við fyrst og fremst af svekkelsi.“

Sjá lengra spjall við Geir í íþróttablaði Moggans í dag.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert