Líkur á að halda Elmari

Theódór Elmar Bjarnason í landsleik.
Theódór Elmar Bjarnason í landsleik. mbl.is/Golli

Íþróttastjóri danska knattspyrnufélagsins Randers, Peter Christiansen, segir að það séu þokkalegar líkur á að íslenski landsliðsmaðurinn Theódór Elmar Bjarnason semji að nýju við félagið.

Samningur Elmars við Randers rennur út í sumar en nú er ljóst að hann mun allavega ljúka yfirstandandi tímabili með félaginu, hvað sem síðar verður.

„Elmar hefur rætt um möguleg félagaskipti við nokkur félög sem hafa áhuga á honum en til þessa hefur hann ekki talið þau nægilega spennandi. Það er því langt í frá útilokað að við náum að semja. En við getum ekki beðið endalaust, það kemur að þeim tímapunkti þar sem allt verður að vera á hreinu og Elmar veit allt um það. En við erum í fínu sambandi við hann og það er alls ekki útilokað að það endi með nýjum samningi," sagði Christiansen við bold.dk.

Elmar, sem er 27 ára gamall, kom til Randers frá IFK Gautaborg í ársbyrjun 20121 og hefur spilað 71 leik með liðinu í dönsku úrvalsdeildinni. Randers er þar í þriðja sæti, níu stigum á eftir Midtjylland en stigi á eftir FC Köbenhavn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert