„Gott að hafa svona þorp á bak við sig“

Dagný Brynjarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, og Hrafnhildur Hauksdóttir á Algarve.
Dagný Brynjarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, og Hrafnhildur Hauksdóttir á Algarve. Ljósmynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir

Á leið sinni að bronsverðlaununum í Algarve-bikarnum í síðustu viku vann íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sinn stærsta sigur á Dönum frá upphafi, 4:1. Síðasta hálftímann í þeim leik voru þrír af ellefu leikmönnum íslenska liðsins, 27%, knattspyrnukonur með rætur úr fámennu félagi fyrir austan fjall; Knattspyrnufélagi Rangæinga.

Dagný Brynjarsdóttir frá Hellu bar fyrirliðabandið en hún er 24 ára gömul og á að baki 61 A-landsleik. Hólmfríður Magnúsdóttir frá bænum Uxahrygg er 31 árs og ein sex landsliðskvenna sem leikið hafa yfir 100 A-landsleiki, og þriðji og nýjasti Rangæingurinn í landsliðinu er svo hin 19 ára Hrafnhildur Hauksdóttir frá Hvolsvelli, sem hefur spilað þrjá fyrstu A-landsleiki sína á árinu.

„Þetta er alveg magnað. Þetta er ekki fjölmennt svæði. Ég veit ekki hvert málið er. Það er reyndar ótrúlega flott æfingaaðstaða hérna, þó að ekkert sé gervigrasið. Grasið grænkar snemma og maður var einhvern veginn alltaf úti í fótbolta í sveitinni. Það er kannski ekkert annað að gera,“ sagði Hrafnhildur hlæjandi þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar.

Hrafnhildur leikur sem vinstri bakvörður og á að baki þrjú tímabil í Pepsi-deildinni, með Selfossi. Ekki er starfræktur meistaraflokkur hjá KFR og leikmenn verða því að leita annað þegar þeir eldast, en Hrafnhildur lék með KFR upp í 3. flokk og spilaði þá með sameiginlegu liði KFR og ÍBV.

Fyrirlestrar frá Hólmfríði

Það er athyglisvert að lítið félag eins og KFR eigi nú þrjár spilandi landsliðskonur, og Hrafnhildur tekur undir að það hafi vissulega verið hvatning að sjá hve langt Hólmfríður og Dagný hafi náð:

„Klárlega. Dagný var oft með systkinum mínum í fótbolta, og ég man alveg eftir því þegar Hólmfríður kom og var með fyrirlestra fyrir okkur. Maður sá það að það væri alveg möguleiki fyrir mann að komast á hátt „level“ eins og hún þó að maður sé úr sveitinni. Þær eru flottar fyrirmyndir,“ sagði Hrafnhildur.

Nánar er rætt við Hrafnhildi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert