Hjartnæm athöfn í Medellín

Frá athöfninni í Medellín í nótt.
Frá athöfninni í Medellín í nótt. AFP

Magnþrungin athöfn átti sér stað á Atanasio Girardot-leikvanginum í Medellín í Kólumbíu í nótt en hann fylltu 45 þúsund manns til að minnast leikmanna brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense sem fórust í flugslysinu hörmulega rétt fyrir utan borgina aðfaranótt þriðjudags.

Fyrri úrslitaleikur Atlético Nacional og Chapecoense í Copa Sudamerica átti að fara fram á vellinum í nótt, að íslenskum tíma. Á tilsettum leiktíma var leikvangurinn troðfullur og leikmenn, starfsfólk og stuðningsmenn Atlético Nacional minntust fórnarlamba slyssins á hjartnæman hátt.

Leikmenn Nacional komu saman á miðjum vellinum með blóm. Áhorfendur héldu á hvítum kertum og sungu til heiðurs Brasilíumönnunum: „Munið það, um álfuna alla, að við munum aldrei gleyma meisturunum í Chapecoense."

Federico Gutierrez, borgarstjóri Medellín, sleppti 71 hvítri dúfu til að minnast hvers og eins þeirra sem létust í flugslysinu. „Meistarar að eilífu“ stóð á skjá vallarins. Áhorfendur risu úr sætum þegar nafn hvers og eins þeirra sem lést var sýnt á skjánum og lyftu kertunum.

Atlético Nacional hefur krafist þess að fá að  gefa úrslitaleikina tvo þannig að Chapecoense verði krýndur meistari í Copa Sudamerica, næststærstu keppni félagsliða í Suður-Ameríku, í fyrsta skipti.

Frá athöfninni í Medellín í nótt.
Frá athöfninni í Medellín í nótt. AFP
Frá athöfninni í Medellín í nótt.
Frá athöfninni í Medellín í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert