Slóvenskur sigur í öðrum leiknum á HM

Diljá Björgvinsdóttir í baráttu um pökkinn í leik Íslands og …
Diljá Björgvinsdóttir í baráttu um pökkinn í leik Íslands og Slóveníu í kvöld. mbl.is/Kristinn

Ísland tapaði fyrir Slóveníu, 5:2, í öðrum leik sínum í 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkíi kvenna sem fram fer í skautahöllinni í Laugardal.

Ísland fékk óskabyrjun þegar Linda Sveinsdóttir kom liðinu yfir strax eftir þriggja mínútna leik eftir frábæran undirbúning Söruh Smiley. Slóvenska liðið þjarmaði hins vegar vel að íslenska markinu og það bar árangur strax tveimur mínútum síðar þegar Nadja Vakaricic jafnaði metin með góðu skoti. Slóvenía var með mikla yfirburði það sem eftir var leikhlutans en staðan var jöfn að honum loknum, 1:1.

Yfirburðir Slóvena héldu áfram í öðrum hluta en Karitas Halldórsdóttir var vel á verði í markinu og kom maroft í veg fyrir að Slóvenar kæmust yfir þrátt fyrir fjölmörg færi. Hún kom hins vegar engum vörnum við þegar fyrirliðinn Pia Pren skoraði eftir hraða sókn, en Ísland hafði þá ekki náð að nýta sér „power play“ rétt áður. Staðan 1:2 fyrir þriðja og síðasta hlutann.

Brekkan varð enn brattari strax í upphafi þriðja hluta þegar Pia Pren, fyrirliði Slóveníu, skoraði annað mark sitt og þriðja mark þeirra. Íslenska liðið bætti í sóknina í kjölfarið en það kom niður á vörninni. Slóvenía nýtti sér það og bætti fjórða markinu við þegar níu mínútur voru til leiksloka. Slóvenía bætti við fimmta markinu þegar skammt var eftir en Guðrún Marín Viðarsdóttir klóraði í bakkann þegar átta sekúndur voru eftir, lokatölur 2:5.

Fylgst var með leiknum í beinni lýsingu hér á mbl.is en nánar verður fjallað um hann í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Næsti leikur Íslands er gegn Króatíu á fimmtudag klukkan 20.

60. Leik lokið, lokatölur 2:5. Þetta var talið sterkasta liðið á mótinu svo það þarf ekki að gráta þetta mikið.

60. MAAAARK! Staðan er 2:5. Þetta er mikilvægt fyrir andlegu hliðina! Þegar átta sekúndur eru eftir skorar Guðrún Marín Viðarsdóttir sem sýnir svo sannarlega að íslensku stelpurnar gefast aldrei upp þótt á móti blási.

60. MAAARK! Staðan er 1:5. Dómararnir réðu ráðum sínum hvort pökkurinn hefði farið yfir línuna og eftir nokkurt rabb dæmdu þeir mark. Það skrifast á Tamöru Lepir eftir mikinn atgang upp við markið en Karitas náði ekki að frysta pökkinn áður en hann skreið yfir línuna.

59. En þá fer Hrund Thorlacius í boxið líka, 1:30 eftir.

57. Stelpurnar eru ekkert að láta baráttuna af hendi og það er vel. Slóvenía fer í boxið í sjötta sinn í leiknum þegar rúmar þrjár mínútur eru eftir.

51. MAAARK! Staðan er 1:4. Slóvenar bæta við og það verður að segjast að það er verðskuldað. Íslensku stelpurnar voru fáliðaðar í vörninni og þegar þær töpuðu pökknum var eftirleikurinn auðveldur fyrir Söru Confidenti.

47. Íslenska liðið verður einfaldlega að nýta sér power play-ið betur annars gengur þetta ekki. Lilja var að dóla sér með pökkinn aftast á svellinu í stað þess að dúndra fram á samherja. Þær geta þetta alveg, þær verða bara að trúa því sjálfar.

42. MAAARK! Staðan er 1:3. Þetta er mikið kjaftshögg strax í upphafi þriðja hluta. Sara Confidenti finnur Piu Pren sem skorar öðru sinni. Nú verður þetta brekka fyrir íslenska liðið.

40. Öðrum leikhluta lokið, staðan er 1:2. Slóvenía hefur eitt mark í forskot fyrir þriðja og síðasta hlutann, en við erum alveg inni í leiknum ennþá! Það hefur ekki vantað baráttuna í íslenska liðið og það er fyrst og fremst því að þakka að pökkurinn lenti ekki oftar í íslenska markinu. Nú er bara að stilla strengina fyrir síðasta hlutann.

36. Ísland fær aftur power play en þær fara illa að ráði sínu og slóvenska liðið nær að éta upp refsitímann með góðri baráttu... Vá, ég hélt þetta væri inni! Linda Sveinsdóttir ein fyrir nánast opnu marki en Ines Confidenti í markinu nær að kasta sér fyrir pökkinn á elleftu, nei tólftu stundu!

33. MAAARK! Staðan er 1:2. Æ þetta var sárt. Slóvenar skora nánast um leið og þær fá fullskipað lið. Markið skoraði fyrirliðinn Pia Pren eftir sendingu frá Söru Confidenti í hraðri sókn. 

31. Annað power play Íslands í leiknum og Lilja Sigfúsdóttir gefur það sannarlega til kynna með hörkuskoti. Næstu tvær mínútur eru gríðarlega mikilvægar og það yrði svo miklu meira en sætt að lauma inn marki.

30. Eins furðulegur og mér finnst frasinn „að vera betri en enginn“ þá verður það alveg að segjast að Karitas Halldórsdóttir hefur svo sannarlega verið það í marki Íslands. Slóvenar hefðu hæglega getað skorað og það nokkrum sinnum en hafa ekki enn fundið leiðina framhjá henni í annað sinn.

26. Það vantar svolítið að ná upp spili hjá íslenska liðinu. Þær æða upp svellið um leið og pökkurinn vinnst en með litlum árangri. Karitas er búin að vera stórkostleg í markinu en ef það kemst ekki meira öryggi í spilið þá er voðinn vís með þessu áframhaldi.

22. Annar hluti byrjar eins og sá fyrsti spilaðist og er slóvenska liðið búið að vera í stórsókn frá upphafsflautinu.

20. Fyrsta leikhluta lokið, staðan er 1:1. Þetta hefur verið frábær skemmtun í fyrsta hluta en það verður að segjast að heppnin hefur svo sannarlega verið með íslenska liðinu. Slóvenía hefur vaðið í færum en það verður ekki tekið af íslensku stelpunum að þær hafa kastað sér fyrir pökkinn eins og þær mögulega geta, þær eru hérna til að berjast. Nokkrum sekúndum fyrir lok leikhlutans slapp Diljá Björgvinsdóttir óvænt ein í gegn en skot hennar var varið. Það hefði verið ansi sætt að stela forystunni fyrir fyrsta leikhlé.

17. Stelpurnar eru of mikið í boxinu, það er nógu mikið þjarmað að þeim svo þær séu ekki að gefa svoleiðis færi á sér líka. Sem betur fer hefur Karitas verið vel á verði í markinu því færin hafa svo sannarlega verið til staðar fyrir Slóveníu. 

14. Það kom ekkert út úr fyrsta „power play-i“ íslenska liðsins. Mikið svakalega var dýrmætt að ná fyrsta markinu miðað við hvað legið hefur þungt á stelpunum í vörninni. 

11. Það er mikill óstöðugleiki í varnarleiknum, þær slóvensku spila vel sín á milli en illa gengur fyrir stelpurnar okkar að hreinsa frá. Karitas hefur þurft að „frysta“ pökkinn í þrígang til þess að létta pressunni af vörninni fyrir framan sig.

7. Það gerðist þarna það sem var nærrum búið að fella stelpurnar í gær, þær ráða illa við „power play“ andstæðingsins. Ísland hefur nú þegar setið í 4 mínútur í boxinu og ekki nema tæpar sjö mínútur búnar. 

5. MAAAARK! Staðan er 1:1. Já þetta grunaði mig, atgangurinn upp við markið bar árangur. Fyrirliðinn Pia Pren fann Nadju Vakaricic sem skoraði með góðu skoti. Þetta stefnir í frábæran leik.

5. Það verður nú að segjast alveg eins og er að markið kom þvert gegn gangi leiksins. Slóvenska liðið hefur farið mikinn upp við íslenska markið.

3. MAAAAARK!! Staðan er 1:0. Glæsilega gert! Sarah Smiley fór af krafti upp hægra megin, sendi pökkinn fyrir þar sem Linda Sveinsdóttir kom honum í netið. Frábært mark og þvílík byrjun!

1. Úff, leikurinn hefst á þungri sókn Slóvena og Arndís Sigurðardóttir hreinsar nánast af línunni. Það sést strax að þetta er mótherji í hærra klassa en Tyrkir.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Króatíska landsliðið eins og það leggur sig var að koma sér fyrir hér fyrir neðan mig, ætla sér að njósna um íslensku stelpurnar fyrir fimmtudaginn.

0. Það eru nú tíu mínútur í leik og það er ekki nema lítið brot af þeim áhorfendafjölda sem var á leiknum í gær á pöllunum. En engar áhyggjur, við fylgjumst með í þráðbeinni hér svo það er um að gera að vera dugleg að refresh-a!

0. Ég verð að segja fyrir mína parta að ég er hrikalega spenntur að sjá hvernig stelpurnar koma inn í þennan leik. Eins og áður sagði er þetta sterkari mótherji en Tyrkir en það hefur eflaust hjálpað til í undirbúningnum að fyrstu stigin eru þegar komin í hús. Ef þær ná að halda tempóinu eins og þær gerðu í öðrum leikhluta í gær þá er allt hægt, en það verður líka að klára færin og þau komu sannarlega á færibandi gegn Tyrkjum þó sigurinn hafi verið naumur.

0. 40 mínútur til stefnu og þá mega leikmenn koma út á ísinn til upphitunar. Þær láta ekki segja sér það tvisvar og koma ein af annarri inn á rennislétt svellið. Ísland spilar í hvítum aðalbúningum í kvöld en Slóvenía í albláum.

0. Tveir leikir fóru fram í deildinni fyrr í dag. Króatía vann þá sigur á Spáni í svakalegum leik, en lokatölur þar urðu 7:5. Belgía vann svo Tyrkland 2:1. Sigri Ísland hér í kvöld verða þær með fullt hús ásamt Króatíu eftir fyrstu tvær umferðirnar, en liðin mætast einmitt í næsta leik á fimmtudag.

0. Góða kvöldið og velkomin með mbl.is hingað í Laugardalinn þar sem keppni heldur áfram á HM kvenna í íshokkí. Eftir nauman sigur á Tyrkjum í gær fá íslensku stelpurnar ívið sterkari mótherja í kvöld þegar liðið mætir liði Slóveníu. Leikurinn í gær var hörkuskemmtilegur og sá í kvöld verður vafalaust engu síðri.

Elva Hjálmarsdóttir með pökkinn í leiknum gegn Tyrklandi í gær.
Elva Hjálmarsdóttir með pökkinn í leiknum gegn Tyrklandi í gær. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert