Bolt kom, sá og sigraði í Peking

Usain Bolt fagnar sigri sínum.
Usain Bolt fagnar sigri sínum. AFP

Usain Bolt kom, sá og sigraði í 100 metra hlaupi á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í gær. Bolt kom í mark á tímanum 9,79 sekúndum og var einu sekúndubroti á undan Justin Gatlin, sem varð annar.

Gatlin er einhver hataðasti íþróttamaður samtímans enda verið dæmdur tvisvar sinnum fyrir að hafa reynt að svindla með ólöglegum efnum. Hann var búinn að hlaupa vel og var spáð sigri enda var Bolt í alls konar rugli í aðdraganda úrslitahlaupsins. En réttlætið sigraði – sem betur fer.

Þetta er tíundi titill Bolts á ferlinum og tíminn er besti tíminn hans í ár. Tveir urðu í þriðja sæti, Bandaríkjamaðurinn Trayvon Bromell og Andre de Grasse frá Kanada, en þeir komu í mark á sama tíma, 9,911 sekúndum. Fengu þeir báðir brons en það tók enginn eftir þeim. Allir fylgdust með viðureign Bolts og Gatlins.

„Þessi sigur er mér mikilvægur enda hef ég verið í vandræðum allt tímabilið,“ sagði Bolt glaður með gullmedalíuna um hálsinn. „Það tók mig smá stund að átta mig á hvert vandamálið var en eftir að ég og þjálfari minn, Glen Mills, uppgötvuðum það fann ég taktinn. Ég hrasaði smá í undanúrslitum en Mills sagði mér að gleyma því og komast aftur í gírinn. Það tókst og ég er mjög ánægður,“ sagði Bolt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert