Garcia með snilldartakta á Carnoustie

Sergio Garcia.
Sergio Garcia. Reuters

Spánverjinn Sergio Garcia er efstur á Opna breska meistaramótinu í golfi sem hófst í dag en Garcia lék á 65 höggum eða 6 höggum undir pari vallar. Garcia er tveimur höggum betri en Írinn Paul McGinley sem var í miklu stuði í morgun. McGinley lék á 67 höggum eða 4 höggum undir pari vallar. Garcia hefur aldrei sigrað á stórmóti í golfi en hann sýndi snilldartakta í dag þar sem hann fékk 7 fugla og 1 skolla.

McGinley hefur ekki náð sér á strik á Evrópumótaröðinni á þessu ári og er hann í 96. sæti á peningalista Evrópumótaraðarinnar.

John Daly frá Bandaríkjunum lék að venju litríkt golf í dag. Hann var á 5 höggum undir pari eftir aðeins 11 holur en Daly fékk örn á 11. holu. Hann náði ekki að fylgja því eftir og endaði hann á 3 höggum yfir pari vallar.

Daly sigraði á Opna breska meistaramótinu árið 1995 og er hann því með keppnisrétt á mótinu allt þar til hann nær 65 ára aldri. Daly er ekki með keppnisrétt á PGA-mótaröðinni á þessu keppnistímabili þar sem hann var ekki á meðal 120 efstu á peningalistanum á s.l. tímabili. Hinsvegar hefur Daly getað valið á milli móta á PGA-mótaröðinni í ár þar sem að hann nýtur enn gríðarlegra vinsælda í heimalandi sínu og styrktaraðilar vilja að Daly sé á meðal keppenda á sem flestum mótum.

Tiger Woods frá Bandaríkjunum hóf titilvörnina með því að leika á 69 höggum á Carnoustie vellinum eða 2 höggum undir pari vallar. Michael Campbell frá N-Sjálandi er á 3 höggum undir pari eða 68 höggum.

Staðan á mótinu.

Nokkrir þekktir kylfingar léku afar illa í morgun og má þar nefna Todd Hamilton frá Bandaríkjunum sem sigraði á Opna breska meistaramótinu árið 2004. Hamilton lék á 10 höggum yfir pari í dag eða 81 höggi. Nick Faldo lék á 79 höggum en enski kylfingurinn hefur 36 sinnum leikið á Opna breska meistaramótinu og þrívegis hefur hann sigrað á þessu móti, síðast árið 1992.

Paul McGinley.
Paul McGinley. Reuters
Tiger Woods á 7. flöt Carnoustie vallarins í dag.
Tiger Woods á 7. flöt Carnoustie vallarins í dag. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert