Jafntefli gegn heimsmeisturunum

Arnór Atlason og Bertrand Gille eigast við í leiknum í …
Arnór Atlason og Bertrand Gille eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/hag

Ísland gerði jafntefli, 28:28, við heims, Evrópu- og Ólympíumeistara Frakka í vináttulandsleik í Laugardalshöllinni í kvöld, eftir að hafa lent átta mörkum undir í leiknum.

Staðan í hálfleik var 17:12, Frökkum í hag en íslenska liðið saxaði jafnt og þétt á forskotið, jafnaði, 26:26, þegar fjórar mínútur voru eftir og komst í kjölfarið yfir, 27:26. Frakkar svöruðu með tveimur mörkum en Ólafur Stefánsson jafnaði, 28:28, þegar rúm mínúta var eftir og þar við sat. Liðin mætast aftur á morgun klukkan 16 í Laugardalshöllinni.

Gangur leiksins: 1:0, 2:1, 2:5, 4:10, 6.13, 9:15, (12:17), 13:17, 17:19, 17:22, 19:24, 23:25, 25:26, 26:26, 27:26, 27:28, 28:28.
Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 10/3, Alexander Petersson 4, Arnór Atlason 4, Róbert Gunnarsson 4, Þórir Ólafsson 3, Logi Geirsson 2, Aron Pálmarsson 1.
Varin skot: Björgvin  Páll Gústavsson 15/2 (þaraf 5/1 aftur til mótherja). Aron Rafn Eðvarðsson 5/1 (þaraf 2 til mótherja).
Utan vallar: 6 mínútur.
Mörk Frakka: Nikola Karabatic 8, William Accambray 8, Bertrand Gille 4, Xavier Barachet 2, Luc Abalou 2, Didier Dinart 1, Guillaume Joli 1, Gregoire Detrez 1, Samuel Honrubia 1.
Varin skot: Thierry Omeyer 13/1 (þaraf 4 til mótherja). Daouda Karaboue 4 (þaraf 3 til mótherja).
Utan vallar: 6 mínútur.

Ítarlega verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið og fylgst var með honum í beinni textalýsingu hér á mbl.is:

60. Leiknum er lokið með jafntefli, 28:28. Frakkar héldu boltanum síðustu mínútuna, Björgvin Páll varði tvö skot þeirra og heimsmeistararnir náðu ekki að komast í færi í blálokin og leiktíminn rann út. Magnaður viðsnúningur íslenska liðsins í seinni hálfleik.

59. Ólafur Stefánsson jafnar, 28:28, þegar 65 sekúndur eru eftir. Tíunda mark hans í leiknum.

58. Tvær mínútur eftir og allt að verða vitlaust í Höllinni. Staðan er jöfn, 27:27. Björgvin Páll hefur varið tvö vítaköst með stuttu millibili.

56. Logi Geirsson jafnar metin, 26:26, fjórar mínútur eftir. Íslenska liðið enn tveimur fleiri á vellinum.

55. Björgvin Páll ver skot úr hægra horni og íslenska liðið fær þriðja möguleikann til að jafna metin, staðan er 26:25, fyrir Frakka. Ólafur Stefánsson kominn inn á eftir að hafa fengið reisupassann í tvær mínútur. Frakkar missa mann af leikvelli, þjálfari þeirra mótmælir og fær fyrir vikið aðra brottvísun. Frakkar verða þar með tveimur leikmönnum færri næstu tvær mínútur, fimm mínútur og 13 sekúndur eftir.

51. Ólafur Stefánsson hefur farið að kostum í síðari hálfleikik. Hann var að minnka forskot Frakka í eitt mark, 26:25.

48. Bertrand Gille var að skora 26. mark Frakka af línunni. Vignir Svavarsson var nú vísað af leikvelli annað sinn í tvær mínútur. Hann er eini leikmaðurinn sem hefur verið rekinn af leikvelli til þessa. Staðan er 26:23, Frökkum í vil.

43. Frakkar náðu að skora tvö mörk í röð meðan þeir voru einum manni fleiri frá 39. mínútu og ná fimm marka forskoti. Nú er aftur jafnt í liðum og Róbert Gunnarsson var að skora sitt fjórða mark af línunni og minnka muninn í fjögur mörk, 23:19. Rífandi stemning í Höllinni.  Björgvin Páll Gústavsson er kominn í  markið á ný eftir að Frakkar skoruðu sitt 24. mark. Staðan 24:19. Miklu munar að Daouda Karaboue hefur staðið í franska markinu í síðari hálfleik og ekkert varið, ólíkt félaga sínum Omeyer í fyrri hálfleik.

37. Íslenska landsliðið byrjar síðari hálfleik af miklum krafti.  Vörnin er ákveðnari, Aron Rafn heldur áfram að verja og sóknarleikurinn gengur betur en áður. Logi Geirsson var að skora sitt fyrsta mark í leiknum úr vinstra horninu og minnka muninn í 19:17.

32. Seinni hálfleikur er hafinn með tveimur góðum íslenskum mörkum, fyrst frá Ólafi Stefánssyni og síðan Aroni Pálmarssyni. Staðan er 18:14.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Frakkar hafa fimm marka forskor eftir að íslenska liðið skoraði þrjú síðustu mörk hálfleiksins, 17:12, Frökkum í vil. Aron Rafn Eðvarðsson, hinn ungi markvörður Hauka, kom í mark Íslands, á 27. mínútu. Hann hefur varið tvö skot, þar af eitt vítakast á lokasekúndunum. Frábær innkoma hjá pilti.
Alexander Petersson, Róbert Gunnarsson, Ólafur Stefánsson og Þórir Ólafsson hafa skorað þrjú mörk hver fyrir Íslands. Björgvin Páll Gústavsson hefur varið 5 skot og Aron Rafn 2.
Nikola Karabatic og William Accambray hafa skorað fjögur mörk hvor fyrir Frakka. Thierry Omeyer hefur farið á kostum í markinu og varið 13 skot, þar af eitt vítakast.

27. Frakkar taka leikhlé, sennilega meira til málamynda en hitt. Ólafur Stefánsson var að minnka muninn í 15:9 með marki eftir hraðaupphlaup.
Alveg er ljóst að flestir í Höllinni verða búnir að fá nóg af einkennislagi EM í Austurríki eftir kvöldið, Sweet Caroline með Össy þeim austurríska. Það glymur nær því endalaust þegar boltinn er ekki í leik.

24. Sem fyrr gengur hvorki né rekur í sóknarleik Íslands. Franska vörnin er frábær og greinilegt er að leikmenn Frakka ætla ekkert að gefa eftir. Þeir tefla öllum sínum vopnum frá í vörninni og eiga auðvelt með að  skora í sókninni. Staðan er 15:7, Frökkum í hag.

17. Íslenska landsliðið tekur leikhle, staðan er 10:4, fyrir Frakka sem leika við hvern sinn fingur í sókn sem vörn. Eftir leikhléið tekur Alexander stöðu Ólafs og Þórir Ólafsson fer í hægra hornið í stað Alexanders.

15. Varnarleikur  Frakkar er frábær og íslenska liðinu gengur ekkert  að opna og fá færi. Þá sjaldan þau gefast ver Thierry Omeyer. Hann hefur varið 8 skot. Staðan 9:4, Frökkum í vil. Logi Geirsson og Aron Pálmarsson voru að koma inn á í sóknina í stað Sturlu Ásgeirssonar og Arnórs Atlasonar.

7. Íslenska liðið byrjar illa, ekki síst í sókninni. Frakkar eru þremur mörkum yfir, 5:2.

1. Alexander Petersson  skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Ísland eftir hraðaupphlaup og sendingu frá Björgvini Páli Gústavssyni.

Nú er stundarfjórðungur þar til leikurinn hefst og Laugardalshöll er að verða full af áhorfendum. Nokkur sæti eru enn laus í efri stúkunni en fleiri áhorfendum verður vart komið fyrir í neðri stúkunni, næst leikvellinum.

Dómarar leiksins í kvöld verða þýsku bærðurnir, Bernd og Reiner Methe. Þeir eru eitt af allra fremstu dómarapörum heims um þessar mundir.

Frá árinu 2000 hafa A-landslið Íslendinga og Frakka mæst tuttugu sinnum á handknattleiksvellinum. Tvisvar hefur íslenska landsliðið unnið, þrír leikir endað með jafntefli en Frakkar unnið fimmtán leiki.

Sigurleikir Íslands á Frökkum frá árinu 2000:
Magdeburg, Þýskalandi, 22. janúar 2007, 32:24.
KA-heimilið, 7. janúar 2001, 24:23.

Jafnteflisleikir Íslands og Frakklands frá árinu 2000:
Västeras, Svíþjóð, 29. janúar 2002, 26:26.
Virum, Danmörku, 20. janúar 2002, 22:22
Pau, Frakklandi, 9. janúar 2000, 20:20.

Sturla Ásgeirsson svífur innúr vinstra horninu í leiknum í kvöld.
Sturla Ásgeirsson svífur innúr vinstra horninu í leiknum í kvöld. mbl.is/hag
Höllin er troðfull í kvöld og áhorfendur margir hverjir í …
Höllin er troðfull í kvöld og áhorfendur margir hverjir í góðum gír. mbl.is/hag
Frá upphitun í Laugardalshöllinni í kvöld.
Frá upphitun í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/hag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert