„Verulega laskaðir til leiks“

Ólafur Stefánsson í leik gegn Þjóðverjum.
Ólafur Stefánsson í leik gegn Þjóðverjum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við erum í ákveðnum erfiðleikum því að báðir miðjumennirnir okkar eru meiddir. Snorri Steinn Guðjónsson vaknaði mjög slæmur í bakinu í nótt og við vitum ekki hvort hann getur spilað, en Aron Pálmarsson hefur ekkert getað tekið þátt í æfingum og er farinn til Íslands. Þetta gerir okkur mjög erfitt fyrir og er áhyggjuefni,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, við Morgunblaðið.

Ísland sækir Lettland heim í Dobele í dag þar sem liðin mætast í undankeppni Evrópumeistaramótsins í handknattleik. Ísland þarf nauðsynlega á sigri að halda til að eiga áfram möguleika á að komast í úrslitakeppnina, en lokaleikur liðsins er gegn Austurríki í Laugardalshöll á sunnudag og þar þarf Ísland einnig á sigri að halda. Óvíst er með þátttöku bæði Snorra Steins og Arons í þeim leik en það er alla vega ekki útilokað að þeir verði báðir klárir í þann leik. Þá gæti verið að Snorri Steinn spili í dag en Ólafur Bjarki Ragnarsson HK-ingur er einnig kominn út.

„Snorri var sprautaður áðan og hugsanlega mun það virka en hann er bara mjög slæmur og vaknaði sárkvalinn í nótt [fyrrinótt]. Hann kenndi sér í raun einskis meins á æfingu í gær en svo kom þetta bara allt í einu upp,“ sagði Guðmundur.

Við meiðslin bætist að íslensku leikmennirnir eru misjafnlega á sig komnir nú þegar keppni er lokið í helstu deildum Evrópu.

„Bæði eru sumir leikmennirnir búnir að vera undir gríðarlegu álagi að undanförnu og aðrir sem hafa ekki spilað nægilega mikið. Deildinni í Danmörku lauk til dæmis fyrir nokkru. Þess vegna rennum við svolítið blint í sjóinn með hvernig okkur tekst að púsla þessu saman miðað við meiðsli og ástand á mönnum. Við vonum það besta en við erum verulega laskaðir,“ sagði Guðmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert