Nú er maður orðinn verulega spenntur

Það er ekki bara íslenska landsliðið í körfuknattleik sem verður í eldlínunni á Evrópumeistaramótinu í næsta mánuði. Dómarinn Sigmundur Már Herbertsson verður með flautuna í D-riðlinum sem leikinn er í Ríga í Lettlandi og verður hann fyrsti íslenski dómarinn sem dæmir á lokamóti A-landsliða.

„Mér líst mjög vel á þetta. Undirbúningurinn er búinn að vera langur og aðdragandinn sömuleiðis. Allir 40 dómararnir hafa unnið saman á netinu í kringum þetta en nú er að skella á manni að þetta er að bresta á. Nú er maður orðinn verulega spenntur,“ sagði Sigmundur í samtali við mbl.is í dag.

Uppgangur íslenska landsliðsins hefur ekki farið framhjá neinum, en Sigmundur tekur undir að tilnefning hans til dómgæslu undirstrikar jafnframt þróunina hér heima.

„Þetta er mikil viðurkenning og ég átti ekki endilega von á því að það yrði valinn dómari frá Íslandi, enda er það ekkert sjálfgefið. En ég var mjög ánægður að fá tilnefninguna og hef unnið hörðum höndum,“ sagði Sigmundur, sem hefur fylgt landsliðinu í þeim æfingamótum sem það hefur tekið þátt í undanfarið.

Hann á eftir þriggja daga námskeið í Frankfurt áður en mótið hefst í Ríga, en allar Eystrasaltsþjóðirnar eru í D-riðlinum ásamt Úkraínu, Belgíu og Tékklandi.

Nánar er rætt við Sigmund í meðfylgjandi myndskeiði.

Sigmundur Már Herbertsson.
Sigmundur Már Herbertsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka