„Þurfum að vera nógu veruleikafirrtir“

Logi Gunnarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, hefur verið lengi í landsliðinu og mun í næsta mánuði upplifa hápunktinn á þeim ferli þegar Ísland tekur í fyrsta sinn þátt í lokakeppni Evrópumótsins.

„Þetta er að bresta á og er mjög spennandi. Maður hefur hugsað um þetta alveg síðan síðasta haust og undirbúningurinn er búinn að vera strembinn og maður bíður bara eftir að komast í þetta,“ sagði Logi í samtali við mbl.is. Riðill Íslands er ógnarsterkur þar sem fáir, ef nokkrir, búast við einhverju af Íslandi.

„Á blöðunum eru möguleikarnir ekki miklir, en við vitum að við höfum farið í marga stóra leiki í gegnum árin og gert góða hluti. Aðal málið er að við sjálfir trúum því að geta unnið þessi stóru lið þó enginn annar trúi því. Við þurfum að vera nógu veruleikafirrtir að halda að við ætlum að vinna þá alla,“ sagði Logi, sem telur íslenska liðið hafa samheldnina fram yfir aðrar þjóðir.

„Þetta er góður hópur og góður kjarni sem hefur myndast. Það er eitt af því sem við höfum fram yfir hin liðin er samheldnin og hvað við erum gott lið. Það eru oft stympingar í þessum stórum liðum þar sem er rifist inn á miili, en hér erum við bestu vinir,“ sagði Logi Gunnarsson við mbl.is.

Nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert