KR í úrslit eftir spennuleik

Jón Arnór Stefánsson sækir að körfu Vals í leiknum en …
Jón Arnór Stefánsson sækir að körfu Vals í leiknum en Benedikt Blöndal er til varnar. mbl.is/Golli

KR-ingar geta varið bikarmeistaratitil sinn í körfubolta karla á laugardaginn eftir að hafa unnið Val í miklum spennuleik, 72:67. Valsmenn voru um tíma sex stigum yfir í fjórða og síðasta leikhlutanum en KR var sterkara á lokasprettinum.

Grindavík og Þór Þorlákshöfn mætast í seinni undanúrslitaleiknum kl. 20 í kvöld. Þetta verður þriðja árið í röð sem KR leikur til úrslita í bikarnum en liðið vann Þór í úrslitaleiknum í fyrra.

Valsmenn, sem leika í 1. deild, voru ekki síðri aðilinn í undanúrslitunum í dag og höfðu frumkvæðið að stórum hluta. Staðan var jöfn í hálfleik, 36:36, en Valur var fjórum stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 54:50. KR virtist sakna Brynjars Þórs Björnssonar mikið í sóknarleiknum en hann er meiddur í ökkla og óvíst að hann geti spilað í úrslitaleiknum á laugardag.

Með öflugum varnarleik, fyrst og fremst, tókst KR hins vegar að jafna metin og komast yfir á lokamínútum leiksins. Valsmenn skoruðu ekki körfu í rúmar fimm mínútur eða þar til að Urald King skoraði einni og hálfri mínútu fyrir leikslok, en hann átti stórkostlegan leik fyrir Val og skoraði 31 stig auk þess að taka 10 fráköst.

Pavel Ermolinski, sem átti ekki góðan dag, skoraði afar mikilvæga þriggja stiga körfu á lokamínútunni eftir að hafa klikkað á fyrstu fimm þristum sínum, og kom KR fimm stigum yfir. Valsmenn þurftu svo að senda KR á vítalínuna og þar var Jón Arnór Stefánsson öryggið uppmálað þegar mest á reyndi.

Philip Alawoya, sem lék sinn annan leik fyrir KR í kvöld, var stigahæstur í liðinu með 20 stig en hann tók einnig 10 sóknarfráköst og 10 varnarfráköst. Jón Arnór skoraði 18 stig og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 12. King var langstigahæstur hjá Val en Birgir Björn Pétursson skoraði 12 stig og Austin Magnus Bracey 11.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

Valur - KR, 67:72
(22:20 - 36:36 - 54:50 - 67:72)

Leik lokið. (67:72) Meistarar KR hafa betur í þessum spennuleik og leika því til úrslita á laugardaginn. Stuðningsmenn Vals rísa úr sætum og klappa fyrir sínum mönnum sem sýndu svo sannarlega frábæra frammistöðu.

40. (67:72) Jón Arnór öruggur á vítalínunni þegar 6,4 sekúndur eru eftir.

40. (67:70) King með körfu og víti að auki þegar 7,8 sekúndur eru eftir. Er enn von fyrir Val?

40. (64:70) King reyndi skot en það fór í hringinn. Jón Arnór setti svo niður bæði víti sín.

40. (64:68) Valsmenn taka leikhlé með 10 sekúndur á skotklukkunni og 24 sekúndur til leiksloka.

40. (64:68) Oddur Birnir hleypti Pavel á vítalínuna, þegar 39 sekúndur voru eftir, og Pavel nýtti seinna vítið.

40. (64:67) King minnkar muninn í þrjú stig af vítalínunni.

40. (62:67) Pavel Ermolinski hafði klikkað á öllum fimm þristum sínum þegar hann setti niður þetta gríðarlega mikilvæga þriggja stiga skot og kom KR fimm stigum yfir.

39. (62:64) Ein mínúta og 13 sekúndur eftir. Skot Jóns Arnórs geigaði. Heill hellingur af mistökum í þessum lokafjórðungi enda mikil spenna í loftinu.

39. (62:64) King nær að minnka muninn með langþráðri körfu fyrir Val. Ein og hálf mínúta eftir.

37. (60:62) Valsmenn eru ekki búnir að skora körfu í rúmar fimm mínútur. Þeir eru hins vegar með boltann og geta jafnað.

36. (60:60) Benedikt sem skot sem hitti ekki hringinn á KR-körfunni, og Þórir skoraði laglega körfu á hinum enda vallarins. Sigurður var svo að jafna metin. Valsmenn taka leikhlé. Rétt tæpar fimm mínútur eftir.

33. (60:54) Darri kastaði boltanum tvær sóknir í röð, kæruleysislega í hendur Valsmanna. KR-ingar unnu þó boltann aftur jafnharðan í seinna skiptið.

32. (58:52) KR-ingar eiga stundum í mestu vandræðum með að ná skoti áður en skotklukkan klárast. Munurinn sex stig.

Leikhluta 3 lokið. (54:50) Það eru tíu mínútur eftir af þessum leik og Valsmenn eru yfir, 54:50. Hver hefði trúað því? 

27. (50:48) Stressið virðist vera að aukast í KR-ingum. Þeir fara til að mynda illa með vítin sín og nú var Snorri Hrafnkelsson að klikka á báðum sínum. Áður hafði Alawoya gert hið sama og Jón Arnór klikkað á öðru sinna.

25. (48:47) King vann boltann af Pavel, fór fram og tróð honum. Austin var svo að setja niður þrist og koma Val yfir! KR-ingar taka leikhlé. Þeir ætla ekki að fara að falla úr keppni hérna gegn 1. deildar liði. Stemningin er öll Valsmegin í stúkunni eins og vænta má.

24. (43:47) Austin setti niður þrist fyrir Val og King kveikti svo heldur betur í áhorfendum með því að verja skot Alawoya, sem virðist orðinn frekar pirraður. Hann hefur þó skorað 16 stig.

21. (38:38) Seinni hálfleikur er hafinn og Darri skoraði fyrstu stig hans en Valsmenn voru fljótir að svara.

Hálflfeikur. (36:36) Leikurinn er hálfnaður og staðan er hnífjöfn! Sannarlega frábær frammistaða hjá 1. deildar liði Vals. Urald King skoraði síðustu körfu fyrri hálfleiks og hefur þar með skorað 14 stig, en Benedikt Blöndal og Birgir Björn Pétursson eru næstir hjá Val með 6 stig. Hjá KR erPhilip Alawoya með 10 stig en alls hafa átta leikmenn KR skorað í leiknum hingað til. Sigurður Þorvaldsson er með þrjár villur og þeir Jón Arnór og Darri tvær hvor, en hjá Val er Birgir Björn sá eini með tvær villur eftir baráttuna undir körfunni.

18. (32:32) Valsmenn jafna metin með silkimjúkum þristi frá Benedikt og körfu frá Sigurði Degi.

16. (25:30) Vilhjálmur Kári kemur ískaldur inn á hjá KR og setur niður þrist og Þórir bætir öðrum við strax í kjölfarið. Ungu mennirnir óhræddir. 

15. (25:24) Darri vann boltann af Valsmönnum og Arnór skilaði honum auðveldlega ofan í körfuna eftir hraðaupphlaup. Valsmenn taka leikhlé.

14. (25:22) Birgir með flotta vörn gegn Alawoya, og svo torsótta körfu á hinum enda vallarins. Vel gert hjá þessum hávaxna leikmanni.

12. (22:22) Birgir Björn sækir þriðju villuna á Sigurð sem fær sér sæti á bekknum hjá KR. Finnur fórnar höndum yfir dómnum. Alawoya skoraði fyrstu stig 2. leikhluta.

Leikhluta 1 lokið. (20:18) Valsmenn byrja þennan leik af krafti og eru yfir gegn meisturunum sem hafa verið talsvert frá sínu besta. Jón Arnór og Sigurður eru einir komnir með tvær villur.

10. (20:18) Austin með snöggan þrist fyrir Val og Sigurður svarar með loftbolta fyrir KR. Valsmenn eru yfir.

7. (15:14) Frábær byrjun hjá 1. deildar liðinu. Valsmenn eru yfir, eftir að Urald King stal boltanum og tróð með tilþrifum. Svona á að kveikja í Höllinni! KR-ingar taka leikhlé.

6. (11:12) Sigurður Þorvalds fær tvær villur á skömmum tíma og fer af velli. Sigurður Dagur setur niður seinna vítið sitt.

3. (8:7) Darri setur niður fyrsta þrist kvöldsins fyrir KR en Benedikt svarar með þeim fyrsta fyrir Val, af spjaldinu.

2. (3:4) Jón Arnór er strax kominn með tvær villur, fyrir brot á Benedikt og King, og hann fær sér sæti á bekknum.

1. (2:2) King skoraði fyrstu stig Vals en Alawoya var fljótur að jafna metin eftir að hafa tekið sóknarfrákast.

1. Leikur hafinn!

0. Byrjunarlið KR er því án Brynjars; Darri, Sigurður, Jón Arnór, Pavel og Alawoya. Hjá Val byrja Sigurður Dagur, Benedikt, Austin Magnus, Birgir Björn og King.

Valur: Sigurður Páll Stefánsson, Sigurður Dagur Sturluson, Benedikt Blöndal, Friðrik Þjálfi Stefánsson, Austin Magnús Bracey, Þorgeir Kristinn Blöndal, Oddur Birnir Pétursson, Ingimar Aron Baldursson, Urald King, Illugi Auðunsson, Birgir Björn Pétursson, Magnús Konráð Sigurðsson.

KR: Arnór Hermannsson, Jón Arnór Stefánsson, Þórir G. Þorbjarnarson, Snorri Hrafnkelsson, Karvel Ágúst Schram, Darri Hilmarsson, Vilhjálmur Kári Jensson, Pavel Ermolinski, Sigurður Á. Þorvaldsson, Philip Alawoya, Orri Hilmarsson, Andrés Ísak Hlynsson.

Philip Alawoya stekkur upp að körfu Vals en Illugi Auðunsson …
Philip Alawoya stekkur upp að körfu Vals en Illugi Auðunsson fylgist með. mbl.is/Golli

---------------------------------

0. Það er sannarlega skarð fyrir skildi hjá KR-ingum en þeir eru án fyrirliðans Brynjars Þórs Björnssonar í dag. Brynjar, sem er stigahæsti leikmaður KR í Dominos-deildinni í vetur, er hér í borgaralegum klæðum, meiddur. Hann vonast til að geta spilað í úrslitaleiknum á laugardag, ef KR kemst þangað.

0. Finnur lofaði kollega sinn hjá Valsliðinu, Ágúst, þegar ég ræddi við hann í vikunni og hann er að sjálfsögðu búinn að skoða vel við hverju má búast frá þeim rauðklæddu í dag. „Valur er til að mynda með [Austin Magnus] Bracey sem spilaði stóra rullu fyrir Snæfell í fyrra og árið þar áður. Þeir eru með Birgi Björn Pétursson, sem hefur verið úti í atvinnumennsku og viðloðandi A-landsliðshóp, og stráka eins og Benedikt Blöndal og Sigurð Dag Sturluson sem hafa spilað í efstu deild og kunna þetta. Þó að þetta lið sé í 1. deild í ár eru þarna strákar sem eiga fullt erindi í úrvalsdeildina og það kemur manni ekkert á óvart að þeir hafi unnið þessa leiki í keppninni hingað til,“ sagði Finnur.

0. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, hefur farið tvisvar með karlalið KR í úrslitaleik bikarsins, í fyrra og hitteðfyrra. Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, stýrði kvennaliði Hauka til bikarmeistaratitils árin 2005 og 2007, og fór einnig með kvennalið Vals í úrslitaleikinn 2013 þar sem það tapaði fyrir Keflavík.

0. Það er kannski til marks um að Valsmenn séu búnir að bíða lengur en KR-ingar eftir leik í Höllinni, en það er hópur af þeim búinn að koma sér vel fyrir í miðri stúkunni; rauðklæddur, með trommur og til í slaginn.

0. Bandaríkjamaðurinn Philip Alawoya leikur í dag aðeins annan leik sinn fyrir KR eftir komuna til Íslands, en hann þreytti frumraun sína í sigri á Þór Þorlákshöfn síðasta föstudag og skoraði þá 14 stig og tók 12 fráköst. Urald King hefur skorað að meðaltali 21,6 stig í leik fyrir Val í 1. deildinni í vetur og tekið 10,5 fráköst.

0. KR-ingar eiga misgóðar minningar úr Höllinni. Hér hafa þeir til að mynda í tvígang tapað naumlega fyrir Stjörnunni í bikarúrslitaleikjum, og alls tapað fimm af síðustu sjö bikarúrslitaleikjum sínum. Þeir unnu hins vegar úrslitaleikinn við Þór Þorlákshöfn í fyrra af öryggi.

0. Það er talsverður munur á bikarsögu Vals og KR. KR hefur unnið bikarinn oftast allra félaga eða alls 11 sinnum, þar af tvisvar á þessari öld (2011 og 2016). Valur hefur unnið bikarinn þrisvar, en það var árin 1980, 1981 og 1983. Valur komst síðast í bikarúrslitaleik árið 1987 svo 30 ára bið gæti lokið í kvöld.

0. Þessi Reykjavíkurslagur virðist fyrir fram vera leikur Davíðs og Golíats. KR er ríkjandi bikarmeistari, sem og þrefaldur Íslandsmeistari, og situr á toppi Dominos-deildarinnar. Valur er hins vegar í 1. deild og situr þar í 3. sæti. Valsmenn hafa hins vegar slegið út þrjú lið úr Dominos-deildinni; Hauka, Skallagrím og Snæfell, á leið sinni í Höllina.

0. Góðan dag og verið velkomin í beina textalýsingu mbl.is frá leik Vals og KR í undanúrslitum Maltbikars karla í körfubolta. Grindavík og Þór Þorlákshöfn mætast í seinni undanúrslitaleiknum og sjálfur úrslitaleikurinn er svo á laugardag.

Bendikt Blöndal með boltann í Höllinni í dag, en Arnór …
Bendikt Blöndal með boltann í Höllinni í dag, en Arnór Hermannsson er til varnar. mbl.is/Golli
Jón Arnór Stefánsson blóðgaðist í leiknum.
Jón Arnór Stefánsson blóðgaðist í leiknum. mbl.is/Golli
Urald King og Philip Alawoya í baráttunni.
Urald King og Philip Alawoya í baráttunni. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert