Þaulsetin gjaldeyrishöft

Íslendingar þurfa að búa sig undir þann möguleika að gjaldeyrishöft verði hér viðvarandi í umtalsverðan tíma, jafnvel nokkur ár. Kom þetta fram í máli Franek Rozwadowski, sendifulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi á árlegum SFF-degi Samtaka fjármálafyrirtækja. Sagði hann einnig að aðstæður væru ekki til staðar fyrir frekari lækkun stýrivaxta Seðlabankans umfram þá lækkun sem þegar sé orðin.

Sagði hann að endurreisnaráætlun IMF og íslenskra stjórnvalda væri tvíþætt. Annars vegar þurfi hagkerfið að aðlagast breyttum aðstæðum og hins vegar þurfi ríkið fjármögnunar við vegna hallareksturs og skuldasöfnunar. Endurfjármögnunin er fengin með láni frá IMF og lánalínum frá vinaþjóðum.

Stöðugleiki er fyrsta forgangsatriði

Segir hann að nauðsyn aðlögunar komi að stærstum hluta til vegna aðstæðna á markaði og þurfi stjórnvöld að bregðast við þeim aðstæðum á réttan hátt. Peningamálastefna Seðlabanka og fjármál ríkissjóðs þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum.

Fyrsta stig í aðlögunarferlinu sé að ná stöðugleika í gengi gjaldmiðils og á fjármálamörkuðum. Segir hann að þessum markmiðum hafi að stórum hluta verið náð nú þegar. Háir stýrivextir og gjaldeyrishöft hafi verið Íslandi dýrkeypt, en þau hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir að gengi krónunnar félli enn meira en það gerði. Það hefði haft mjög alvarleg áhrif á fyrirtæki og heimili.

Þá endurreisn

Næsta stig í aðlöguninni sé að aukin áhersla er lögð á endurreisn. Hugsanlega megi þá létta á vaxtastefnu og gjaldeyrishöfum. Hvað varðar vaxtastefnuna segir hann að nú þegar hafi orðið umtalsverð lækkun á stýrivöxtum, en að við núverandi aðstæður megi þó ekki lækka stýrivexti of mikið eða of hratt. Áður en það geti gerst verði að auka traust erlendra fjárfesta á íslenska hagkerfinu. Það verði t.d. gert með því að koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Verði vextir lækkaðir mikið eða hratt nú er hætt við að það myndi setja óheppilega mikinn þrýsting á krónunnar til frekari lækkunar.

Þá sé hugsanlegt að nauðsynlegt reynist að viðhalda gjaldeyrishöftum um nokkurn tíma, jafnvel í nokkur ár. Þegar fram líði stundir verði hugsanlega hægt að slaka á höftum, t.d. fyrir flutninga á nýju fjármagni. Við slíkar aðstæður myndu höftin hins vegar vera áfram á því erlenda fjármagni, sem nú þegar er í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK