Ekki reita David Pratt til reiði

Bretinn David Pratt hefur verið aðvaraður. Ef hann sést aftur ganga um í miðbæ Peterborough íklæddur stuttermabol með „særandi“ skilaboðum þá á hann í hættu á því að fá 80 punda sekt (sem jafngildir rúmum 10.000 kr.).

Lögreglumenn í Peterborough sögðu við Pratt, sem vinnur við að stýra lyftara, að hann gæti móðgað fólk eða hvatt til ofbeldisverka með því að ganga í bolnum.

Skilaboðin á bolnum eru eftirfarandi: „Don't piss me off! I am running out of places to hide the bodies,“ sem myndi útleggjast á íslensku: „Ekki reita mig til reiði! Þeim stöðum fer fækkandi þar sem ég get falið líkin.“

Borgarráð Peterborough hefur látið hafa eftir sér að það sé lögbrot ef menn segja eitthvað sem þykir vera móðgandi eða sem túlka má sem árás á einhvern, jafnvel þótt það birtist á prenti.

Lögreglumennirnir ræddu við Pratt þegar hann var að bíða eftir strætó með eiginkonu sinni. Hjónin hafa nú krafið borgaryfirvöld um skriflega afsökunarbeiðni.

„Ég á erfitt með að sjá hvernig orð á stuttermabolnum mínum geti hvatt til ofbeldis - þetta er grín, það er ekki flóknara en það,“ sagði Pratt.

Fréttavefur BBC skýrir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert