Frakki fær bókmenntaverðlaun Nóbels

Franski skáldsagnahöfundurinn Jean-Marie Gustave Le Clézio fékk í dag bókmenntaverðlaun Nóbels.

Le Clézio er af bretónskum ættum, fæddur 1940. Fyrstu skáldsögur hans voru tilraunaverk, og „hann tilheyrir kynslóðinni sem kemur í kjölfar nýsöguhöfundanna, eins og Robbe-Grillet,“ segir Torfi Tuliníus bókmenntafræðingur.

„Síðan fór hann að skrifa venjulegri skáldsögur og virkilega slær í gegn á árunum 1983-84 með sögu sem heitir Gullleitarmaðurinn, sem fjallar um vonlausan draum manns um að finna sjóræningjagull.“

Torfi segist einungis vita til einnar þýðingar á verki eftir Le Clézio, það sé óbirt smásaga sem gerist á Íslandi og heitir Undir fjalli hins lifandi guðs. Það sé greinilegt að Le Clézio hafi komið til Íslands.

Nýjasta skáldsaga Le Clézio kom út fyrir tæpri viku, eða svo, og fjallar um hungur. Það er þroskasaga ungrar konu á fyrri hluta 20. aldar og hefst á þessum orðum:

„Ég þekki hungrið, ég hef fundið fyrir því, ég var barn í stríðslok og var í hópi þeirra sem hlupu á eftir vörubílum fullum af Ameríkönum og réttu út höndina til að fá súkkulaði og brauð sem hermennirnir voru að dreifa til okkar.“

„Þetta er mjög flottur höfundur sem hefur gott vald á franskri tungu,“ segir Torfi. „Það er alveg í anda nóbelsnefndarinnar að heiðra þennan mann, því að Nóbelsverðlaun fara til þeirra sem taka siðferðislega og samfélagslega afstöðu, og hann hefur virkilega gert það.“

Jean-Marie Gustave Le Clézio.
Jean-Marie Gustave Le Clézio. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert