Hættur steðja víða að Obama

Margir óttast um öryggi Obama, forsetans sem svo miklar vonir …
Margir óttast um öryggi Obama, forsetans sem svo miklar vonir eru bundnar við JASON REED

Leyniþjónusta Bandaríkjanna glímir nú við að smíða flókna öryggisáætlun fyrir lestarferð Barack Obama fá Philadelphiu í Pennsylvaniu, til Washington þar sem hann mun taka við embætti forseta þann 20. janúar næstkomandi. Með fyrirhugaðari lestarferð verður vígsluathöfnin sú opnasta og aðgengislegasta í sögunni, en hún býður jafnframt upp á ýmis öryggisvandamál.

Gefið hefur verið til kynna að almenningi muni gefast færi á að berja för forsetans augum á fjölda staða á 220 km langri leið lestarinnar, en að undanskildum vel þekktum stöðvum hefur af öryggisástæðum ekki enn verið gefið uppi hvar það verður. Öryggissérfræðingar segja að hætturnar felist víða á leiðinni, í fjölda bygginga og vöruskemma meðfram lestarteinunum, auk ýmissa brúa og jarðganga sem þar sem hætta er á að verði unnin skemmdarverk.

Þá hafa umhverfisverndarhópar varað við því að hryðjuverkamenn gætu gripið tækifærið til að beina árásum að efnaverksmiðjum meðfram leiðinni. Samtökin Greenpeace og Friends of the Earth hafa sent leyniþjónustunni bréf þar sem þau hvetja Obama og varaforsetann Joe Biden til að endurskoða áætlanir sínar um að ferðast með lest.

Fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustunnar segir við fréttavefinn CNN að þar séu menn alvanir að undirbúa lestarferðir forseta og yfirleitt séu settar upp nema sem skynja geislun og eiturefni meðfram leiðinni. Ekki er ljóst hvort lestin verði brynvarin en Amtrak lestarfélagið hefur tilkynnt að ferðir forsetans tilvonandi verði varðar úr lofti, láði og legi. Áskorunin sé stór, en margar deildir lögreglunnar vinni að því í sameiningu að ferðin gangi slysalaust fyrir sig.

Sagt hefur verið að vígsluathöfnin sjálf sé ekki síður ákjósanlegt skotmark fyrir hryðjuverkahópa vegna sögulegs mikilvægis hennar fyrir bandarísku þjóðina. Engar hótanir hafa þó borist að sögn leyniþjónustunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert