Manning „skilinn eftir til að veslast upp“

Bradley Manning.
Bradley Manning.

Bradley Manning, hermaðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa lekið bandarískum leynigögnum til WikiLeaks, hefur nú greint frá þeirri óréttlátu meðferð sem hann hefur hlotið í fangelsinu. Manning, sem er 23 ára, hefur setið í varðhaldi í Virginíu frá því í júní í fyrra.

Í 11 blaðsíðna bréfi sem David Coomb, lögmaður Mannings, hefur sent frá sér segist hermaðurinn hafa verið „skilinn eftir til að veslast upp við óþarflega hörð kjör í hámarks öryggisgæslu.“ Manning lýsir því hvernig hann hefur verið afklæddur á hverju kvöldi og annarri meðferð sem jafnast á við „ólögmæta refsingu sem á sér stað fyrir réttarhöld.“

Er þetta í fyrsta sinn sem Manning greinir sjálfur frá fangelsisvistinni, en allar fregnir af henni hafa hingað til komið frá lögfræðingi hans eða vini. Lýsingin hefur hvatt Sameinuðu þjóðirnar til þess að hefja rannsókn á aðstæðum hermannsins og mannréttindasamtökin Amnesty International til mótmæla gegn bandarísku ríkisstjórninni. 

Lýsing Manning á meðferð sem hann hlaut í byrjun árs hefur vakið sérstaka athygli. Á þriggja daga tímabili frá 18.janúar var hermaðurinn undir sérstöku eftirliti þar sem óttast var að hann myndi taka eigið líf. „Ég var látinn fara úr öllu nema nærfötunum mínum. Gleraugu mín með styrkleika voru tekin og mér gert að sitja í algjöru sjónleysi.“ 

Saksóknarar í Bandaríkjunum hafa ákært Bradley Manning í 22 liðum. Að sögn blaðsins Washington Post eru viðurlög við einum ákæruliðnum dauðarefsins. Hins vegar muni saksóknarar ekki fara fram á dauðarefsingu þótt Manning verði sakfelldur fyrir að „aðstoða óvininn". Meðal ákæruliðanna er að Manning hafi valdið því að leynilegar upplýsingar voru birtar á netinu þótt hann hafi mátt vitað að það veitti óvininum aðstoð. Þá hafi hann brotið reglur Bandaríkjahers um meðferð upplýsinga.

Nánar er fjallað um málið á fréttavef the Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert