Líklegt að flugöryggi verði endurskoðað

Malasískir leitarmenn fljúga yfir Andamanhafi við eyjuna Súmötru.
Malasískir leitarmenn fljúga yfir Andamanhafi við eyjuna Súmötru. AFP

Hvarf malasísku flugvélarinnar, sem enn er leitað að í Indlandshafi,  gæti leitt til meiriháttar endurskoðunar á flugöryggismálum. Sú staðreynd að risastór Boeing-777-farþegaþota, sem búin er öllum nýjasta tæknibúnaði, geti horfið í þetta langan tíma er verulegt undrunarefni og eitt og sér nægilegt tilefni til að knýja fram breytingar á því hvernig eftirlit með flugumferð fer fram.

Fleiri flugvélar hafa nú verið ræstar út til að taka þátt í leitinni, eftir að meira brak sást í sjónum.

Svarti kassinn gefur aðeins boð í 30 daga

„Það er enginn vafi um það að þetta er ein mesta ráðgáta nútímaflugumferðar og þetta mun hafa áhrif á flugiðnaðinn um allan heim,“ segir Jonathan Galaviz, sérfræðingur hjá bandaríska ráðgjafarfyrirtækinu Global Market Advisors, í samtali við AFP.

„Ég á von á því að gerð verði ítarleg endurskoðun á tækninni sem við notum núna til að skrásetja ferðir flugvéla. Það mun einnig koma til skoðunar hvort ástæða sé til að streyma gögnum um flugferðir á rauntíma í gegnum gervihnetti svo það verði hægt að fylgjast stöðugt með þeim,“ segir hann.

Með hjálp gervihnatta hafa nú fundist hlutir á floti í Indlandshafi, um 2.500 km suðvestur af Perth í Ástralíu, sem talið er hugsanlegt að séu brak úr vélinni. Leitin að hlutunum er hinsvegar í raun fremur frumstæð - leitarmenn fljúga yfir risastórt svæði með sjónaukann á lofti í gegnum glugga flugvéla.

Finnist staðurinn þar sem vélin brotlenti verður það forgangsatriði að hafa uppi á „svarta kassanum,“ flugritanum, áður en hann hættir að senda frá sér gögn.

Flugritinn og upptökutæki í flugstjórnarklefanum gefa aðeins frá sér boð í um 30 daga. Ekki er ólíklegt að sú tímalengd verði endurskoðuð, í ljósi þess hversu lengi leit hefur staðið árangurslaust að malasísku flugvélinni.

Leitað í lofti úr átta flugvélum

Í dag, sunnudag, hafa átta flugvélar verið sendar út til að herða leitina að flugvélinni í Indlandshafi. Leitarsvæðið hefur verið stækkað eftir að Kínverjar birtu nýjar myndir af hugsanlegu braki í gær.

Ástralar stjórna aðgerðum, en auk þeirra eru einnig leitarflugvélar frá Bandaríkjunum, Kína, Nýja-Sjálandi og Japan. Leitarsvæðið er um 59.000 ferkílómetrar. Skýjað er á leitarsvæðinu í dag og nokkur móða sem gæti hamlað leitinni, en vonast er til að létta muni til þegar líður á daginn.

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í morgun að aukin von væri um að svör fengjust um örlög flugvélarinnar. „Við höfum nú fengið nokkrar mjög trúlegar vísbendingar og vonin vex - þótt það sé ekki meira en von - um að við gætum verið að nálgast það að komast að því hvaða dapurlegu örlög þessi flugvél hlaut.“

Kínversk kona, sem á ættingja um borð í flugi MH370, …
Kínversk kona, sem á ættingja um borð í flugi MH370, ásamt dóttur sinni á hóteli í Peking þar sem fjöldi kínverskra ástvina farþeganna bíða tíðinda. AFP
Japanskur hermaður horfir út um gluggann á flugvélinni sem flytur …
Japanskur hermaður horfir út um gluggann á flugvélinni sem flytur hann til Ástralíu til að taka þátt í leitinni að flugi MH370. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert