Hunsuðu tilboð Rússa

Mótmælendur halda á spjöldum þar sem stendur m.a. að Evrópa …
Mótmælendur halda á spjöldum þar sem stendur m.a. að Evrópa þurfi aðeins að koma einum frá, í stað þess að taka á móti milljónum. Er þar vísað til Assad. AFP

Fyrir þremur árum lögðu Rússar til að forseti Sýrlands, Bashar al-Assad, færi frá völdum til að stuðla að friði en tillagan var hunsuð af Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. Þetta segir Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels.

Ahtisaari hélt fund með sendiboðum ríkjanna fimm sem eiga fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í febrúar 2012, en hann segir að á meðan viðræðum stóð yfir hafi sendiherra Rússlands, Vitaly Churkin, lagt fram þriggja punkta áætlun sem fól m.a. i sér að Assad afsalaði völdum eftir að viðræðum hefði verið komið á milli stjórnvalda og stjórnarandstöðunnar.

Að sögn Ahtisaari voru fulltrúar Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands hins vegar svo sannfærðir um að stjórn Assad væri að falli komin, að tillagan var hunsuð. „Tækifæri glataðist 2012,“ sagði Ahtissari í viðtali.

Þúsundir hafa látist og milljónir þurft að flýja heimili sín í Sýrlandi frá 2012.

Opinberlega hafa stjórnvöld í Rússlandi stutt dyggilega við bakið á Assad og ítrekað að friðarsamkomulag geti ekki falið í sér afsögn forsetans. Assad hefur sagt að Rússland muni aldrei láta af stuðningi sínum við stjórnvöld í Sýrlandi.

Ráðamenn í Moskvu hófu nýlega að senda hersveitir, þungavopn og herþotur til Sýrlands til að aðstoða í baráttunni gegn uppreisnarmönnum.

Talaði Churkin fyrir Moskvu?

Það var svokallað öldungaráð sem sendi Athissari til að funda með fulltrúum þeirra ríkja sem eiga fast sæti í öryggisráðinu, en meðal þeirra sem hafa átt sæti í öldungaráðinu eru leiðtogar á borð við Nelson Mandela, Jimmy Carter og Kofi Annan.

„Áhugaverðastur var fundurinn með Vitaly Churkin, af því að ég þekki náungann,“ sagði Ahtisaari. „Við erum ekki endilega sammála um margt, en við getum talað opinskátt. Ég útskýrði erindi mitt og hann sagði: Martti, sestu niður og ég skal segja þér hvað við ættum að gera.“

„Hann sagði þrjá hluti: Númer eitt - við ættum ekki að vopna andstöðuna. Númer tvö - við ættum að koma á samræðum milli andstöðunnar og Assad umsvifalaust. Númer þrjú - við ættum að finna snyrtilega leið fyrir Assad að stíga til hliðar.“

Churkin hefur neitað að tjá sig um ummæli Ahtissari, sem hann segir varða einkasamtal.

Ahtissari segist í engum vafa um að Churkin hafi gengið erinda stjórnvalda í Moskvu, en Sir John Jenkins, fyrrverandi yfirmaður málefna Mið-Austurlanda í utanríkisráðuneyti Bretlands, dregur það í efa.

„Ég tel að ef hann hefði tjáð mér hvað Churkin sagði, þá hefði ég svarað að ég vildi heyra það frá Pútín ef ég ætti að taka það alvarlega,“ segir Jenkins. Guardian hefur eftir öðrum diplómata að hann efist um að ríkin þrjú hefðu hunsað hugmynd Rússa þegar hún var lögð fram. Líklegar verði að teljast að efasemdir hafi verið uppi um tímaröð áætlunarinnar og getu Rússa til að fá Assad til að gefa sig.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

Martti Ahtissari, fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels.
Martti Ahtissari, fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Ljósmynd/norden.org
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert