Yfir 250 þúsund dánir

Yfir 250 þúsund manns hafa látist í Sýrlandi vegna stríðsátaka þar í landi frá því mótmæli gegn forseta landsins hófust í mars 2011, eða fyrir rúmum fjórum árum. Yfir 600 þúsund flóttamenn hafa komið til Evrópu í ár, flestir frá Sýrlandi.

Samkvæmt nýjum tölum frá mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights hafa alls 250.124 manns látist á þessum tíma, þar af 74.426 almennir borgarar. Af þeim eru 12.517 börn. Alls hafa tæplega 44 þúsund liðsmenn herja og samtaka sem berjast gegn forseta landsins látist og 37 þúsund útlendir skæruliðar. Úr hersveitum hliðhollum forseta landsins hafa tæplega 92 þúsund fallið, þar á meðal 52 þúsund stjórnarhermenn. 

Inni í þessari tölu eru ekki um 30 þúsund manns sem er saknað í Sýrlandi en talið er að 20 þúsund þeirra séu í fangelsum í Sýrlandi. Þeir sem talið er að séu í haldi Ríkis íslams og annarra skæruliðahreyfinga eru heldur ekki taldir með.

Að minnsta kosti fjórar milljónir Sýrlendinga hafa neyðst til þess að flýja land og fleiri milljónir eru á vergangi í heimalandinu.

Yfir 613 þúsund flótta- og förufólk hafa komið til Evrópu yfir Miðjarðarhafið í ár en 3.100 hafa drukknað. 

Gríðarleg aukning hefur orðið í komu flóttafólks til Grikklands undanfarna daga og er talið að um 85 bátar flóttamanna komi þangað á degi hverjum.

Áður en stríðið braust út var talið að um 23 milljónir byggju í Sýrlandi, þar af fjölmargir landflótta Palestínumenn og Írakar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert