50 létust í árás í Kandahar

Alls létust fimmtíu manns í umsátri talibana á flugvellinum í Kandahar sem stóð yfir í 27 klukkustundir. Afgönsk stjórnvöld greindu frá þessu í dag.

Ellefu sjálfsvígsárásarmenn brutust inn á svæðið á þriðjudag en þar á að vera hámarksöryggisgæsla. Sameiginleg herstöð NATO og Afgana er á svæðinu. Árásarmennirnir tóku fjölskyldur í gíslingu. Til harðra skotbardaga kom á milli gíslatökumannanna og hermanna en umsátrinu lauk ekki fyrr en í gær er árásarmennirnir sprengdu sig upp þar sem þeir stóðu meðal óbreyttra borgara.

Í tilkynningu frá varnarmálaráðuneyti Afganistans kemur fram að 38 almennir borgarar, 10 hermenn og tveir lögreglumenn hafi látist í árásinni. 37 særðust, þar af 17 hermenn og fjórir lögreglumenn.

Talibanarnir fóru inn á markað og í skóla á flugvallarsvæðinu og sprengdu sig þar upp meðal fólks sem er búsett í herstöðinni.

Talibanar hafa birt mynd af árásarmönnunum á vef sínum en á henni sjást tíu ungir karlar í herbúningum, vopnaðir Kalashnikov-rifflum. 

Í útvarpsviðtali segir einn herforingi í afganska hernum að einhverjir þeirra hafi talað úrdú, tungumál sem er algengt í nágrannaríkinu Pakistan.

Við flugvöllinn í Kandahar
Við flugvöllinn í Kandahar AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert