233 látnir í Ekvador

Björgunarmenn ná slösuðu fólki út úr húsi sem hrundi í …
Björgunarmenn ná slösuðu fólki út úr húsi sem hrundi í borginni Manta. AFP

Staðfest hefur verið að í það minnsta 233 eru látnir í kjölfar jarðskjálftans í Ekvador. Skjálftinn varð seint í gærkvöldi að íslenskum tíma og mældist 7,8 stig. Talið er að tala látinna eigi enn eftir að hækka. Fleiri hundruð manns slösuðust.

Í frétt BBC kemur fram að um 10 þúsund hermenn og 3.500 lögreglumenn séu að aðstoða á þeim svæðum sem urðu verst úti.

Skjálftinn er sá versti sem orðið hefur í landinu í áratugi. Árið 1906 varð stór skjálfti undan ströndum Ekvador. Hann mældist 8,8 stig. Talið er að á bilinu 500-1500 hafi látist í flóðbylgju sem myndaðist. Flóðbylgjan fór að ströndum allrar Mið-Ameríku og alla leið að San Francisco og til Japans.

Frétt mbl.is: Tíu stærstu skjálftar frá árinu 1900.

Áhrifa skjálftans gætti mest á svæðum við norðvesturströnd landsins.  „Þetta eru mjög erfiðir tímar,“ sagði varaforseti landsins, Jorge Glas. „Við höfum upplýsingar um slasað fólk sem er enn fast í rústum húsa á mörgum svæðum og við erum að reyna að bjarga því.“

Erfitt er fyrir björgunarlið að komast að þeim svæðum sem verst urðu úti þar sem skriður féllu á vegi. Á sumum stöðum reynir fólk að moka ástvini sína út úr rústum með höndunum einum saman.

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í landinu. Forsetinn var staddur á Ítalíu er skjálftinn varð en er nú á heimleið.

„Þriðja hæðin hrundi ofan á okkur,“ segir kona í bænum Manta, sem varð mjög illa úti í skjálftanum. „Þau eru þarna enn, fjölskyldan mín, systir mín, börnin mín. Þau eru þarna öll enn.“

Fréttin verður uppfærð.

Jarðskjálfti í Ekvador
Jarðskjálfti í Ekvador
AFP
Leitað í rústum húsa.
Leitað í rústum húsa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert