Syrgðu hetjurnar í hellirigningu

Íbúar brasilísku borgarinnar Chapeco syrgðu knattspyrnuliðið sitt sem fórst í flugslysi í Kólumbíu á minningarathöfn sem var haldin í dag í hellirigningu.

Athöfnin fór fram á knattspyrnuleikvangi liðsins Chapecoense en aðeins tíu dagar eru liðnir síðan íbúarnir studdu liðið til dáða á sama leikvangi. 

Frétt mbl.is: Verður fjölsótt minningarathöfn

Hermenn báru inn á leikvanginn líkkistur þeirra 50 leikmanna, þjálfara og starfsliðs sem fórust.

Kisturnar voru vafðar inn í fána liðsins sem er grænn og hvítur á litinn. Þær komu heim til Kólumbíu í morgun og ekið var með þær rólega í gegnum borgina í dag.

Ættingi eins þeirra sem fórst í flugslysinu grætur á minningarathöfninni …
Ættingi eins þeirra sem fórst í flugslysinu grætur á minningarathöfninni í dag. AFP

Frétt mbl.is: „Hann drap þá“

Tveir risaskjáir voru settir upp fyrir utan leikvanginn þannig að allir gætu fylgst með athöfninni. Um 19 þúsund komust fyrir á leikvanginum sjálfum en búist var við um 100 þúsund manns í heildina á svæðinu, sem er um helmingur borgarbúa.

Skilaboð frá Frans páfa voru lesin upp við athöfnina en alls fórst 71 manneskja í flugslysinu.

Ættingjar leikmanna héldu á spjöldum með myndum af þeim.
Ættingjar leikmanna héldu á spjöldum með myndum af þeim. AFP

„Það mun taka langan tíma fyrir Chapeco að jafna sig á þessu. En ég ætla að halda áfram að mæta á völlinn,“ sagði Rui Alonso Thomas, sem var á meðal þeirra sem mættu á athöfnina.

„Við fórum á hvern einasta leik sama hvernig veðrið var. Draumur okkar var að rætast. Þetta er óskiljanlegt,“ sagði hann með tárin í augunum og átti þar við gott gengi liðsins á knattspyrnuvellinum.

Hermenn bera kistu inn á leikvanginn.
Hermenn bera kistu inn á leikvanginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert