Trump: „Mér líður mun betur núna“

Donald Trump flutti ávarpið frá forseta svítu Walter Reed hersjúkrahússins.
Donald Trump flutti ávarpið frá forseta svítu Walter Reed hersjúkrahússins. Skjáskot

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem greindist með kórónuveirusmit og var lagður inn á hersjúkrahús á föstudaginn, sendi frá sér ávarp sem hann birti á Twitter í gærkvöldi. Í myndbandinu, þar sem forsetinn er jakkafataklæddur, þakkar hann starfsfólki Walter Reed-sjúkrahússins fyrir störf sín. Sagði Trump að sér hefði ekki liðið svo vel þegar hann kom á sjúkrahúsið en staðan væri önnur núna. „Mér líður mun betur núna.“

Trump sagði að líklega myndi hann halda aftur í Hvíta húsið fljótlega og halda kosningabaráttu sinni áfram. Kórónuveirusmit eins og þetta væri nokkuð sem kæmi fyrir og hann hefði smitast eins og milljónir manna um allan heim. „Ég er að berjast fyrir þau,“ sagði forsetinn og bætti við: „Við munum sigrast á kórónuveirunni, eða hvað sem þið viljið kalla hana.“

Fjöldi stuðningsmanna Trumps safnaðist saman fyrir utan sjúkrahúsið í gær.
Fjöldi stuðningsmanna Trumps safnaðist saman fyrir utan sjúkrahúsið í gær. AFP

Líkti hann þeim meðferðum sem nú væru í boði við kraftaverk frá guði, en Trump er nú á fimm daga lyfjakúr með remdesi­v­ir-lyf­inu, en það var fram­leitt gegn lifr­ar­bólgu C og hef­ur verið notað gegn ebólu. Hef­ur það einnig reynst vel gegn kór­ónu­veiru.

Að lokum þakkaði Trump þjóðarleiðtogum víða um heim og fólki, hvar í flokki sem það stæði, fyrir góð skilaboð síðustu daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert