Heilsufar forsetanna: Leyndarmál, lygar og tíst

Donald Trump Bandaríkjaforseti á leið sinni frá Walter Reed-sjúkrahúsinu þar …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á leið sinni frá Walter Reed-sjúkrahúsinu þar sem hann var meðhöndlaður vegna kórónuveirunnar. AFP

Hversu heilsuhraustur er Donald Trump í raun og veru? Mótsagnakenndar og ónákvæmar upplýsingar sem hafa borist frá embættismönnum síðan Bandaríkjaforsetinn smitaðist af kórónuveirunni sýna að heilsufar valdhafans í Hvíta húsinu er vel geymt leyndarmál.

Greinendur segja einnig að Trump hafi notfært sér stafræna miðla til að stjórna umfjölluninni um fyrsta stóra heilbrigðisvandamál forseta Bandaríkjanna síðan samfélagsmiðlarnir komu fram á sjónarsviðið.

Frá því að tilkynnt var síðasta föstudag að Trump hefði greinst með veiruna hefur einkalæknir hans, Sean Conley, verið sakaður um að veita brotakenndar og ruglingslegar upplýsingar sem eru á skjön við það sem Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, lét hafa eftir sér.

Að sögn Matthews Algeo, höfundar þó nokkurra bóka um endurteknar lygar bandarískra leiðtoga, eru forsetar ekki skyldugir til að vera hreinskilnir um heilsufar sitt. Þess vegna komi það ekki á óvart ef þeir eru það ekki.

„Hérna er gengið út frá heiðursmannasamkomulaginu þegar kemur að heilsu forsetans okkar,“ sagði hann.

Sean Conley, í miðjunni, á blaðamannafundi, ásamt fleirum úr læknateymi …
Sean Conley, í miðjunni, á blaðamannafundi, ásamt fleirum úr læknateymi forsetans. AFP

Trump sækist eftir endurkjöri til embættis forseta og innan við mánuður er í kosningar. Núna er ekki rétt tíminn til að líta út fyrir að vera eitthvað annað en í pottþéttu standi, segja greinendur.

„Forsetar vilja ekki líta út fyrir að vera veikir, enginn stjórnmálamaður vill líta veiklulega út. Þeir gera hvað sem er til að koma í veg fyrir það,“ sagði Algeo.

Rose McDermott, sérfræðingur frá Brown-háskóla í heilsufari bandarískra forseta, segir að sú staðreynd að læknir forsetans sé hluti af bandaríska hernum, í tilfelli Conley, liðsmaður sjóhersins, feli í sér hagsmunaárekstra.

„Hann er bæði læknir forsetans og forsetinn er einnig æðsti yfirmaður hans í hernum,“ sagði hún. „Það þýðir að ef forsetanum líkar ekki það sem hann segir um hann, þá getur hann rekið hann [...] og hann getur til dæmis tekið af honum lífeyrinn.“

John F. Kennedy (t.h.) á yngri árum.
John F. Kennedy (t.h.) á yngri árum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Wilson og JFK

Saga bandarískra forseta er uppfull af lygum um heilsu þeirra. Woodrow Wilson fékk alvarlegt heilablóðfall þegar hann var forseti haustið 1919 sem lamaði hann að hluta til. Enginn minntist á það opinberlega fyrr en í febrúar 2020.

Dwight Eisenhower gerði lítið úr alvarleika hjartaáfalls sem hann fékk árið 1955, auk þess sem John F. Kennedy talaði aldrei um Addison-sjúkdóminn lífshættulega sem hann var með.

Morðið á Kennedy árið 1963 leiddi til þess að fjórum árum síðar var sett inn klausa í 25. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar þar sem kom fram að varaforsetinn tekur við embætti forseta ef forsetinn deyr eða er ekki hæfur til að gegna embættinu.

Fyrir utan augljós og alvarleg meiðsli, eins og þegar Ronald Reagan var skotinn og særðist árið 1981 og völd hans tímabundið færð yfir til varaforsetans þáverandi, George Bush, þá er ekki nógu skýrt hverjar kringumstæðurnar þurfa að vera til að bandaríska þingið lýsi forsetann vanhæfan til að inna af hendi skyldur sínar, að sögn Algeo.

Ronald og Nancy Reagan þegar hún var heiðruð fyrir baráttu …
Ronald og Nancy Reagan þegar hún var heiðruð fyrir baráttu sína gegn fíkniefnum árið 1988. AFP

Aukinn áhugi fjölmiðla og útbreitt notkun samfélagsmiðla hefur ekki aukið gegnsæi, segja greinendur, jafnvel þótt forsetarnir geta ekki lengur falið sig frá almenningi, líkt og Wilson gerði í fjóra mánuði. Sérstaklega þar sem núverandi forseti er raunveruleikastjarna sem gerðist grimmur tístari og veit hvernig á að vera miðpunktur athyglinnar, samkvæmt Emerson Brooking hjá Atlantic Council.

Trump hefur haldið fjölmiðlum á tánum síðan á föstudaginn og matað þá með myndskeiðum af sjálfum sér þar hann segist hafa sigrast á veirunni og þar sem hann ók á sunnudaginn meðfram hópi stuðningsmanna sinna fyrir utan sjúkrahúsið þar sem hann var meðhöndlaður. Lokahnykkurinn var síðan endurkoma hans í Hvíta húsið á mánudaginn, sem Brooking líkir við „stiklu úr kvikmynd“.

„Trump áttar sig á hraða nútímafjölmiðla,“ sagði hann. „Ef fjölmiðlar eru að ræða um eða gagnrýna það nýjasta í kringum Trump sjálfan eru þeir ekki að spyrja hann annarra spurninga um stefnuna í tengslum við Covid-19 eða notkun 25. viðauka stjórnarskrárinnar,“ bætti hann við.

Joe Biden og Donald Trump á samsettri mynd.
Joe Biden og Donald Trump á samsettri mynd. AFP

Sjálfstæður læknahópur?

Vegna skorts á gegnsæi í tengslum við veikindi forstans hafa sumir sérfræðingar beðið um að stofnaður verði hópur sjálfstæðra lækna sem myndi fylgjast með heilsu forsetans. Þetta ákall hefur fengið aukið vægi vegna aldurs Trumps, sem er elsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna, 74 ára, og andstæðingur hans úr Demókrataflokknum, Joe Biden, er 77 ára.

„Kannski þarftu ekki að segja almenningi frá hverju einasta smáatriði en þú verður að vera með sjálfstæðan hóp sem segir: „Já, þessi manneskja er í góðu líkamlegu ásigkomulagi, eða í eins góðu formi og hægt er að búast við,“ sagði McDermott.

Hingað til hafa þessar óskir ekki hlotið hljómgrunn í Bandaríkjunum, ekki frekar en í öðrum vestrænum ríkjum. McDermott bætir við að heilsufar leiðtoga sé ekki aðeins tabú í Bandaríkjunum. Einræðisríki eru augljóst dæmi en íbúar í lýðræðisríkjum þurfa einnig oft á tíðum að geta sér til um heilsufar leiðtoga sinna.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands sem hefur verið hrósað fyrir það hvernig hún hefur tekist á við kórónuveirufaraldurinn, var myrk í máli um hvers vegna hendur hennar skulfu opinberlega á síðasta ári. „Ég hef ekki séð neinn sýna gott fordæmi, til dæmis einu sinni á ári, með því að birta upplýsinar um heilsufar líkt og þegar margir bandarískir leiðtogar birta skattskýrslur sínar,“ sagði McDermott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert