Merkel líklega ekki með parkinson

Á myndskeiðunum af Merkel skjálfa sést ekki hvenær hún stendur …
Á myndskeiðunum af Merkel skjálfa sést ekki hvenær hún stendur upp eða hvað hún hefur staðið lengi á fótum. AFP

Það er allt sem bendir til þess að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sé að segja rétt frá orsökum ítrekaðra skjálftakasta sem hún hefur fengið síðustu vikur, segir Anna Björnsdóttir, taugalæknir og sérfræðingur í parkinsonsjúkdómi, í samtali við mbl.is Hún telur ekki líklegt að Merkel þjáist af parkinson sjúkdóminum.

„Það er rétt að taka það fram að það er ómögulegt að gera sjúkdómsgreiningu með því að  horfa á fólk á nokkrum myndböndum. Maður verður að tala við fólk og skoða það,“ tekur Anna skýrt fram í byrjun símtals við mbl.is. En þar sem Anna er sérfræðingur á sínu sviði þá þótti tilefni til að fá hana til að spekúlera um hvað gæti verið að orsaka skjálftaköstin ítrekuðu hjá Merkel.

Mögulega blóðþrýstingsfall

„Það er allt sem bendir til þess að hún sé að segja rétt frá, það er um að hafa orðið betri eftir nokkur vatnsglös. Hún stendur alltaf í þessum myndböndum og í minnsta kosti sumum þeirra er mjög heitt,“ segir Anna til að byrja með og bætir við:

„Ef fólk fær blóðþrýstingsfall sem gerist stundum í miklum hita og þegar fólk hefur ekki drukkið nóg, þá eru fyrstu viðbrögð hjá sumum að fara skjálfa. Öðrum svimar og ef blóðþrýstingsfall verður nógu svæsið þá getur liðið yfir fólk.“

Á myndskeiðunum af Merkel skjálfa sést ekki hvenær hún stendur upp eða hvað hún hefur staðið lengi á fótunum áður en skjálftinn byrjar. Það útilokar þó ekki að um blóðþrýstingsfall gæti verið að ræða því það geta liðið allt að sex mínútur frá því að manneskja stendur upp þangað til hún fær einkenni blóðþrýstingsfalls, segir Anna og útskýrir nánari hvað blóðþrýstingfall er fyrir blaðamanni.

Fljótt að líða hjá

„Þetta er skjálfti sem tengist réttstöðu blóðþrýstingsfalli (e. Orthostatic hypertension) og ef það er rétt sem hún segir, að henni hafi liði betur eftir nokkur vatnsglös, þá passar það algjörlega.“

Anna Björnsdóttir taugalæknir og sérfræðingur í parkinsonsjúkdómi telur einkennin helst …
Anna Björnsdóttir taugalæknir og sérfræðingur í parkinsonsjúkdómi telur einkennin helst passa við blóðþrýstingsfall. mbl.is/Hari

Við skoðun á myndskeiðunum sést að skjálftinn líður hjá eftir stutta stund Merkel sést halda á blöðum og taka í hendur viðstaddra án þess að skjálfa. Anna segir það einnig passa við einkenni blóðþrýstingsfalls. „Blóðþrýstingsfall líður hjá á ákveðnum tíma. Það kemur upp nokkrum mínútum eftir að fólk stendur upp en svo jafnar fólk sig, þó það setjist ekki niður,“ útskýrir hún.

Líkist ekki parkinson skjálfta

„Fólk er alltaf að spá í því hvort viðkomandi gæti verið með parkinson. Af því sem ég get sagt með því að horfa á þetta þá lýsir parkinson skjálfti sér ekki svona. Og maður þarf reyndar að vera með mörg önnur einkenni til að greinast með parkinson,“ segir Anna.

Þá segir Anna að kvíðavaldandi aðstæður og álag geti einnig leitt til skjálfta en það sé ólíklegt að um slíkt sé að ræða í tilviki Merkel þar sem skjálftinn virðist hætta um leið og hún gengur af stað. „Þetta líður hratt yfir svo það er ólíklegri greining hjá henni.“

Konur hafa almennt meiri tilhneigingu til að fá réttstöðu blóðþrýstingsfall þó að það komi oft fram í hita og vegna vökvaskorts getur það einnig gert í svalara lofti. „Það sem ég sé á Íslandi þá er þetta mjög algengt einkenni og venjulega ekki tengt hita hjá Íslendingum heldur frekar vegna vökvaskorts,“ segir Anna að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina