Enn og aftur skelfur Merkel

Angela Merkel og Antti Rinne í dag.
Angela Merkel og Antti Rinne í dag. AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari sást hríðskjálfa við hlið forsætisráðherra Finnlands í morgun. Er þetta í þriðja sinn á einum mánuði sem Merkel sést skjálfa á opinberum viðburði. 

Í myndskeiði sést Merkel hristast fram og aftur við athöfn í Berlín í dag. Eftir atvikið sagðist Merkel þó vera við hestaheilsu og að það væri „ekkert tilefni til áhyggja“. Samkvæmt talsmanni hennar mun hún halda sig við óbreytta áætlun sína í dag. 

Merkel, 64 ára, sást síðast skjálfandi fyrir tveimur vikum síðan í Berlín, sama dag og hún hélt til Japans fyrir fund G20-ríkjanna. Aðspurð sagði hún við blaðamenn á leiðtogafundinum að heilsa hennar væri góð. 

Í dag sást hún grípa um hendur sér í tilraun sinni til að stöðva skjálftann, en hún stendur við hlið finnska forsætisráðherrans Antti Rinne í myndskeiði BBC. Á skjálftinn að hafa varað í að minnsta kosti eina mínútu. 

Merkel sást fyrst skjálfa við opnunarmóttöku í Berlín fyrir nýkjörinn forseta Úkraínu, Volodymyr Zelensky. Kenndi Merkel ofþornun um skjálftann og sagði hún við blaðamenn að henni hafi liðið betur eftir að hafa drukkið vatnsglas. 

Merkel er nú á sínu fjórða kjörtímabili sem kanslari, en hún tók fyrst við embætti í nóvember 2005. Hefur hún sagst ætla að hætta í stjórnmálum árið 2021 þegar fjórða kjörtímabili hennar lýkur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert