Ósamræmi í frásögnum af líðan Trumps

Donald Trump Bandaríkjaforseti á föstudaginn, áður en hann var lagður …
Donald Trump Bandaríkjaforseti á föstudaginn, áður en hann var lagður inn á sjúkrahús. AFP

Talsvert ósamræmi virðist vera í frásögnum af líðan Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Sean Conley, læknir forsetans, sagði fyrir utan Walter Reed-sjúkrahúsið, þar sem Trump var lagður inn vegna kórónuveirusmits, að forsetinn væri við góða heilsu. Blaðamenn höfðu hins vegar fengið aðrar fregnir frá heimildarmanni sem sagður er þekkja vel til heilsu forsetans.

Uppfært: Fréttin hefur verið uppfærð með nýjustu vendingum í málinu og mögulegum rangfærslum Conleys um hvenær Trump greindist með veiruna. Lesa má um þær neðst.

Greindu nokkrar bandarískar fréttastofur frá þessu, en samkvæmt heimildarmanninum höfðu menn miklar áhyggjur af líðan forsetans síðasta sólarhringinn og að næstu tveir sólarhringar myndu skipta miklu máli upp á bata hans að gera.

Læknir forsetans sagði jafnframt við blaðamenn að Trump hefði ekki þurft á því að halda að vera gefið súrefni, en slíkt getur þurft þegar um slæm einkenni af völdum sjúkdómsins er að ræða.

Sean Conley, læknir Donalds Trumps.
Sean Conley, læknir Donalds Trumps. AFP

AP-fréttastofan hefur nú hins vegar greint frá því að Trump hafi fengið súrefni á föstudaginn áður en hann fór á sjúkrahúsið.

Það er því enn nokkuð óljóst hvernig líðan forsetans er, en kröfur um nákvæmari upplýsingar um líðan forsetans frá Hvíta húsinu eru farnar að verða háværari, bæði frá andstæðingum og samflokksfólki Trumps.

Tíst frá Trump birtist á Twitter á sjötta tímanum, en þar þakkar hann heilbrigðisstarfsfólki og segir að með þeirra hjálp líði honum vel.

Þetta er ekki eina misræmið sem kom fram hjá Conley miðað við það sem áður hafði verið gefið upp. Þannig sagði Conley að 72 klukku­stund­ir væru síðan Trump hefði greinst, en það þýðir að fyrsta grein­ing hafi verið á miðviku­dag­inn, en áður hafði verið greint frá veik­ind­um Trumps seint á fimmtu­degi eða í byrj­un föstu­dags. 

Blaðamaður BBC deildi fyrir stuttu minnisblaði frá lækni forsetans þar sem hann leiðrétti rangfærslur á blaðamannafundinum fyrr um daginn. Sagðist hann óvart hafa notað 72 klst í stað þess að tala um að veikindi Trumps væru nú á þriðja degi. Þá hefði hann einnig notað 48 klst í stað þess að tala um að meðferð Trumps væri á öðrum degi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert