Líf lögð að veði í leikhúsi stjórnmálanna

Margir heilbrigðisstarfsmenn eru ósáttir við hegðun forseta Bandaríkjanna, Donalds Trumps, í gær eftir að hann fór út af sjúkrahúsinu þar sem hann dvelur til að heilsa upp á stuðningsmenn sína. Þetta gerði hann þrátt fyrir að vera með mjög smitandi sjúkdóm sem getur dregið fólk til dauða.

Trump var með grímu þegar honum var ekið um í skotheldum bíl í kringum Walter Reed-hersjúkrahúsið skammt fyrir utan höfuðborgina, Washington. Svo virðist sem ökuferðin hafi átt að sýna fram á að hann væri við betri heilsu. Um helgina komu misvísandi skilaboð frá læknum Trumps um heilsufar og líðan forsetans. Trump greindist með kórónuveiruna snemma á föstudag og var lagður inn á sjúkrahús síðar þann dag.

Áður en Trump fór í ökuferðina hafði læknir hans sagt hann vera það hressan að hann gæti útskrifast af sjúkrahúsi í dag. Sérfræðingar segja aftur á móti að með framferði sínu hafi Trump farið gegn leiðbeiningum bandarískra stjórnvalda. Þar sé kveðið á um að fólk sé í einangrun á meðan meðferð stendur yfir og fólk er enn með einkenni COVID-19. 

Trump, sem hefur ítrekað hunsað leiðbeiningar heilbrigðisyfirvalda og dreift falsfréttum um farsóttina, segir í myndskeiði sem birtist á Twitter skömmu áður en hann fór út af sjúkrahúsinu að hann hefði lært margt um COVID-19 með því að fara í raunverulegt nám og að hann hefði haft betur í baráttunni við veiruna.

„Þetta er fáránlegt“

Læknar hafa gagnrýnt framferði Trumps bæði í ljósvakamiðlum og samfélagsmiðlum. Segja þeir að hegðun hans sýni það svart á hvítu að Trump hafi ekki lært neitt.

„Hver einasta manneskja sem var í bifreiðinni í þessari algjörlega óþörfu bílferð forsetans þarf nú að fara í sóttkví í tvær vikur,“ segir James Phillips, yfirlæknir farsóttasviðs læknadeildarinnar við George Washington-háskólann.

„Þeir geta veikst. Þeir geta dáið. Fyrir leikhús stjórnmálanna. Fyrirskipað af Trump að leggja líf sitt að veði fyrir leikhúsið. Þetta er fáránlegt.“

Talsmaður Hvíta hússins, Judd Deere, segir að gripið hafi verið til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda Trump og starfsfólk hans. Meðal annars með hlífðargöllum. Hann segir að læknateymi forsetans hafi lagt blessun sína yfir bílferðina.

En Zeke Emanuel, yfirmaður heilbrigðissviðs háskólans í Pennsylvaníu og reglulegur álitsgjafi í sjónvarpi, segir framferði forsetans til skammar. „Það að láta leyniþjónustumenn keyra um með COVID-19-smitaðan einstakling í lokuðu rými er til þess fallið að setja þá í óþarfa hættu á að smitast. Fyrir hvað? Almannatengslaaðgerð?“ skrifar hann á Twitter.

Flogið var með forsetann á sjúkrahúsið á föstudag eftir að heilsu hans hrakaði hratt, hann var með háan hita og þurfti á súrefni að halda. Þetta kom fram í stuttri yfirlýsingu læknis forsetans, Seans Conleys, í gær. Conley á ekki von á öðru en Trump geti snúið aftur í Hvíta húsið í dag enda öll aðstaða þar fyrir hendi til að sinna forsetanum í einangrun. 

Héldu upplýsingum leyndum

Conley staðfesti í gær að því hefði verið haldið leyndu að forsetinn hefði þurft á súrefni að halda og eftir að Conley gaf afar óljósar upplýsingar um heilsu forsetans á laugardag ákvað Mark Meadows, sem fer með málefni Hvíta hússins, að greina frá því að líðan Trumps hefði valdið verulegum áhyggjum og að ekki væri víst að hann væri á batavegi. 

Joe Biden, sem er frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum sem fram fara í byrjun nóvember, hefur verið duglegur að tilkynna að hann sé ekki smitaður af COVID-19. Í gærkvöldi tilkynnti hann niðurstöðu nýjustu skimunar – ekkert COVID-19. Hann fer í dag í vikulangt kosningaferðalag til Flórída.

Á sama tíma er óttast að fjölmargir í kringum Trump hafi smitast af COVID-19, ekki síst fólk sem hitti forsetann á fundi hans með stuðningsmönnum í New Jersey á fimmtudagskvöldið. Á þeim tíma vissi Trump að Hope Hicks væri með COVID-19 en hún er einn nánasti ráðgjafi forsetans.

Í síðustu viku birti Wall Street Journal/NBC skoðanakönnun sem sýndi að tveimur dögum eftir sjónvarpskappræður Trumps og Bidens var forskot Bidens sífellt að aukast. Mældist hann með stuðning 53% kjósenda en Trump 39%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert