„Finn fyrir miklum meðbyr“

Halla Hrund Logadóttir mæl­ist með tæp­lega 29% fylg­is í nýj­ustu …
Halla Hrund Logadóttir mæl­ist með tæp­lega 29% fylg­is í nýj­ustu skoðana­könn­un Pró­sents. mbl.is/María Matthíasdóttir

Halla Hrund Logadóttir segist fyrst og fremst þakklát fyrir þær hlýju móttökur sem hún hafi fengið í kosningabaráttu sinni um forsetaembættið en samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósents, sem gerð var fyrir Morgunblaðið, hefur hún tekið forystu í baráttunni um Bessastaði.

Fylgi Höllu mælist 28,5% og er hún greinilega á mikilli siglingu en í könnun Prósents í liðinni viku mældist fylgi hennar 18%. Ekki mælist marktækur munur á henni og Baldri Þórhallssyni, sem mælist með 25% fylgi.

„Ég finn fyrir miklum meðbyr og er fyrst og fremst þakklát fyrir þær hlýju móttökur sem ég hef fengið. Ég hef verið í öflugu samtali við fólk á ólíkum stöðum á landinu og ég finn að við erum að tala fyrir samstöðu, samstarfi og gleði í samfélaginu. Það eru þau gildi sem ég finn að við erum öll sammála um,“ segir Halla Hrund við mbl.is.

Stutt síðan ég tilkynnti um framboðið

Halla segir að forsetinn hafi möguleika á að magna allt það góða sem komi frá Íslandi sama hvaðan það komi frá landinu.

Ert þú ekkert hrædd um að þú sért kannski að toppa of snemma?

„Það er mjög stutt síðan ég tilkynnti um framboðið og það eru ennþá margar vikur í kosningar. Ég hlakka til að nýta þann tíma sem allra best til að hitta sem flesta og hlakka til að eiga samtalið áfram um hvernig við getum nýtt kraftana saman,“ segir Halla Hrund.

Halla segist þakklát fyrir mikla hvatningu, hlýju og stuðnings á meðal fólks. Hún segist vera með stórt net sjálfboðaliða út um allt land og það sé í anda hennar um þátttöku og samvinnu.

„Kosningabaráttan er rétt að fara af stað og í dag var verið að úrskurða hvaða framboð voru gild. Framundan eru spennandi en jafnframt skemmtilegar vikur,“ segir Halla Hrund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert