Væri hægt að víkja Trump úr embætti?

Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fráfarandi Bandaríkjaforseti. AFP

Eftir árás óeirðaseggja á þinghús Bandaríkjaþings á miðvikudag hafa margir kallað eftir því að Donaldi Trump Bandaríkjaforseta verði vikið úr embætti fyrir að hvetja til óeirðanna.

Kjörtímabili Trump lýkur 20. janúar þegar Joe Biden verður svarinn í embætti forseta. Fjölmargir, meðal annars Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, vilja að Trump verði vikið úr embætti fyrr. 

Ólíklegt er að Trump láti fyrr af embætti en áætlað er. Þó eru nokkrir möguleikar í stöðunni fyrir þingmenn, sérstaklega demókrata, sem vilja ólmir losna við forsetann. 

Bréfaskrif

Leiðtogar demókrata þau Nancy Pelosi og Chuck Schumer hafa hvatt varaforsetann Mike Pence og ríkisstjórn Trump til þess að virkja 25. viðauka stjórnarskrárinnar og víkja forsetanum úr embætti fyrir að „hvetja til uppreisnar“.

Ákvæðið heimilar varaforsetanum að stíga inn í embætti forseta þegar forsetinn getur ekki sinnt skyldum sínum, til dæmis ef forsetinn verður óstarfhæfur vegna líkamlegra eða andlegra veikinda. Um er að ræða fjórðu málsgrein greinarinnar sem veitir varaforsetanum og meirihluta ríkisstjórnarinnar heimild til að lýsa Trump vanhæfan til að sinna skyldum sínum. 

Pence og meirihluti ríkisstjórnarinnar myndu þurfa að skrifa undir bréf sem sent yrði til bæði öldunga- og fulltrúadeildar, þar sem vanhæfi forsetans er lýst yfir. Á þeim tímapunkti myndi Pence sjálfkrafa taka við störfum forseta. Forsetanum er gefið færi á að bjóða fram skriflegt andsvar ef hann er mótfallinn niðurstöðu varaforseta og ríkisstjórnar og þá er það í höndum Bandaríkjaþings að ákveða hvernig málum verði ráðstafað. Tveir þriðju hlutar þingsins þurfa að samþykkja niðurstöðuna. 

Líkurnar á að Pence og hið minnsta átta ráðherrar snúi baki sínu við Trump eru þó ekki miklar á þessum tímapunkti. 

Kæra fyrir embættisbrot 

Hafist Pence ekkert við í málinu hefur Pelosi gefið í skyn að fulltrúadeildin muni leggja fram, að öðru sinni, kæru á hendur Trump fyrir embættisbrot (e. impeachment). 

Trump hefur nú þegar verið kærður fyrir embættisbrot vegna ásakana um að hann hafi leitað eftir aðstoð yfirvalda Úkraínu til að ná endurkjöri. Öldungadeildin sýknaði hann af þeim kærum. 

Ákveði fulltrúadeildin að leggja fram kæru verður Trump fyrsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna til að vera kærður fyrir embættisbrot oftar en einu sinni. Aldrei áður hefur forseti verið sakfelldur fyrir kærur fulltrúadeildar fyrir embættisbrot. Ólíklegt er að svo yrði nú, enda gefur ekkert til kynna að demókratar gætu tryggt tvo þriðju atkvæða í öldungadeildinni sem þarf til sakfellingar. Þá er ólíklegt að nægur tími sé til stefnu svo að yfirhöfuð sé hægt að setja ferlið af stað. 

Gæti Trump náðað sjálfan sig?

Fjölmiðlar vestanhafs hafa haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum að Trump hafi borið það undir aðstoðarmenn sína að náða sjálfan sig á síðustu dögum forsetatíðar sinnar.

Ekki liggur fyrir hvort að forseti Bandaríkjanna, sem hefur náðunarvald, geti náðað sjálfan sig, enda hefur aldrei í sögunni reynt á slíkt. 

BBC hefur eftir fræðimönnum á sviði lögfræðinnar að forsetinn gæti ekki farið þessa leið, en þessu til stuðnings er álit dómsmálaráðuneytisins sem gefið var út skömmu áður en Richard Nixon sagði af sér. Nixon var sagður ekki getað náðað sjálfan sig „á grundvelli þeirrar meginreglu að enginn maður getur verið dómari í sínu eigin máli.“

Aðrir fræðimenn segja þó að bandaríska stjórnarskráin taki ekki fyrir það að forsetinn geti náðað sjálfan sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert