Dæmdur í 5½ árs fangelsi fyrir manndrápstilraun

Dómshús Hæstaréttar.
Dómshús Hæstaréttar. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt 19 ára gamlan karlmann, Arnar Val Valsson, í 5½ árs fangelsi fyrir manndrápstilraun en maðurinn stakk 17 ára pilt með hnífi í bakið með þeim afleiðingum að hann hlaut lífshættulegan áverka. Maðurinn var einnig ákærður fyrir þjófnað og tilraun til nytjastuldar. Í Héraðsdómi Reykjaness var maðurinn dæmdur í 5 ára fangelsi.

Arnar Valur játaði í öllum tilvikum þá háttsemi sem honum var gefin að sök en hann var ákærður fyrir að stinga pilt í bakið utan við hús við Móabarð í Hafnarfirði sl. vor. Hnífurinn gekk inn á milli hryggjartinda, inn í mænugöng og skaðaði taugar. Afleiðingar hnífstungunnar til lengri tíma eru m.a. skert geta til að stunda kynlíf, minnkaður máttur og skyntap í vinstri fæti. Miklar líkur eru taldar á því að svo verði ævilangt.

Hæstiréttur taldi, að þótt aðdragandi þess að Arnar stakk hinn manninn hefði verið skammur yrði ekki litið framhjá þeim ásetningi, sem bjó að baki för hans um nóttina á fund mannsins, vopnaður hættulegum hníf. Var ekki talið að Arnari hafi getað dulist þegar hann réðist að manninn, að bani hlytist eða kynni að hljótast af djúpri hnífsstungu inn í líkama hans.

Arnar Valur var einnig dæmdur til að greiða manninum sem hann stakk rúmlega 1,7 milljónir króna í bætur auk sakarkostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert