Gestastofa Tónlistar- og ráðstefnuhúss opnuð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Portusar, voru …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Portusar, voru viðstödd opnunina í dag.

Gestastofa Tónlistar- og ráðstefnuhúss var opnuð við hátíðlega athöfn kl.17 í dag, að viðstöddum fjölda gesta. Gestastofan, sem er til húsa á efstu hæð hússins við Hafnarstræti 20 á Lækjartorgi, er sett upp með það að markmiði að gefa sem flestum kost á því að fá upplýsingar og fylgjast með byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins, væntanlegri starfsemi í húsinu sem og framvindu allra framkvæmdanna við Austurhöfnina í Reykjavík.
 
Fram kemur í tilkynningu að gestastofan opni fyrir almenningi á laugardag, 12.júlí, og verði þar eftir opin alla daga vikunnar. Opið verður frá kl. 10-17 virka daga og um helgar frá kl. 13-17. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. 
 
Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður Portusar, opnaði Gestastofuna formlega ásamt Maríu Björk Óskarsdóttur, framkvæmdastjóra Gestastofu, með því að afhjúpa glæsilegan 10 metra langan útsýnisglugga sem vísar út að framkvæmdasvæðinu við Austurhöfnina þar sem Tónlistar- og ráðstefnuhúsið rís. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ávarpaði gesti.

Stórkostlegt útsýni yfir hafnarsvæðið 

Í Gestastofunni hefur verið sett upp sýning sem veitir gestum innsýn í þróun þess umfangsmikla verkefnis sem bygging Tónlistar- og ráðstefnuhúss er og mun hún taka breytingum í takt við framkvæmdirnar. Varpað er ljósi á breytta ásýnd miðborgarinnar með tilkomu hússins og geta gestir virt fyrir sér stórkostlegt útsýni bæði til norðurs og suðurs.
 
Á sýningunni skyggnast gestir í söguna á bak við hönnun og byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhússins í máli og myndum, með líkönum og þrívíddarmyndum. Í Gestastofu verður boðið upp á fjölda viðburða s.s. fyrirlestra, kynningarfundi og tónleika. Gestastofa sem þessi er nýlunda hér á landi en tíðkast hins vegar víðsvegar um heiminn þegar um meiriháttar framkvæmdir er að ræða.
 
Um 85% af steypuvinnu við húsið er lokið

Hönnun Tónlistar- og ráðstefnuhúss er að mestu lokið, verkfræðihönnun lýkur í sumar og verið að leggja síðustu hönd á lita- og efnisval. Um 85% af steypuvinnu við húsið er lokið en húsið verður alls 8 hæðir. Glerhjúpur sem umlykja mun húsið er í hönnun og framleiðslu í Kína og hefst uppsetning í lok sumars. Að ári ætti húsið að vera að fullu klætt með glerhjúpnum. Við verkefnið starfa nú milli 400 og 500 manns, þar af eru um 250 á verkstað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert