RKÍ fordæmir árásir á sjúkrahús og vöruhús á Gaza

Börn eru helstu fórnarlömb stríðsátakanna á Gaza.
Börn eru helstu fórnarlömb stríðsátakanna á Gaza. Reuters

Rauði kross Íslands fordæmir árásir á sjúkrahús og vöruhús Rauða hálfmánans á Gaza í gær, sem og ítrekuðum árásum á óbreytta borgara. RKÍ segir þær stríða gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og öllum siðrænum gildum í mannlegu samfélagi

„Byggingar Rauða hálfmánans skemmdust illa í árásunum. Þetta gerir starfsmönnum og sjálfboðaliðum Rauða krossins og Rauða hálfmánans enn erfiðara fyrir að halda úti lífsnauðsynlegu hjálparstarfi,” segir Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands, í tilkynningu.

Þúsundir manna sem þurfi nauðsynlega á læknisaðstoð að halda fái enga hjálp því öll sjúkrahús séu yfirfull og hjálparstarfsmenn hafi lítinn aðgang að svæðum þar sem fjöldi sjúkra og særða hafist við.

Flytja þurfti um 500 sjúklinga Al Quds sjúkrahússins, sem rekið sé af palestínska Rauða hálfmánanum, á jarðhæð þar sem þeir hafist nú við fullir örvæntingar og hræðslu. Efri hæðir sjúkrahússins urðu illa úti í árásinni, og eldur kviknaði í annarri hæð byggingarinnar.

„Hjálparstarfsmenn Rauða hálfmánans og Rauða krossins vinna hér þrekvirki á hverjum degi við lífshættulegar aðstæður,” segir Pálína Ásgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins, sem er nú stödd í Gaza, í tilkynningunni. Pálína vinnur að því að samhæfa neyðaraðgerðir Alþjóða Rauða krossins á sjúkrahúsum í Gaza og á Vesturbakkanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert