Telur meirihluta á Alþingi fyrir Icesave

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, og Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, koma á …
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, og Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, koma á ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir fund þingflokks Samfylkingarinnar í dag, að það hefði verið samþykkt bæði í ríkisstjórn og þingflokkum að leggja breytingar á Icesave-samkomulaginu fyrir Alþingi. Sagðist Jóhanna telja, að meirihluti væri fyrir breytingunum á þingi. 

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að á fundi þingflokks VG í dag hefði verið samþykkt að leggja málið fyrir þingið. Menn hefðu verið sammála um það á fundinum, að mikið hefði áunnist á síðustu dögum og vikum. „Það er himinn og haf á milli þess sem var og þess sem er nú," sagði Guðfríður Lilja. 

„Ég er bjartsýn á að málið verði farsællega til lykta leitt," bætti hún við en tók fram að þingmenn gengju óbundnir að málinu á Alþingi. 

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði við fréttamenn eftir þingflokksfund Samfylkingarinnar, að það hefði breytt hinni pólitísku stöðu í Icesave-málinu, að Bretar og Hollendingar gerðu sér grein fyrir því hve deilurnar um Icesave-skuldbindingarnar voru komnar á alvarlegt stig hér á landi og að þær hefðu getað valdið stjórnarslitum.

„Ég tel að okkar staða gagnvart þeim hafi styrkst og það sé þess vegna sem við náðum ákveðnum hlutum inn á lokasprettinum," sagði Össur. Þegar hann var spurður hvort hann væri sáttur við niðurstöðuna svaraði hann: „Þetta er meira en hundsbit, allt þetta mál er auðvitað grábölvað."

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í dag, að efnahagslegi fyrirvarinn, sem Alþingi setti fyrir ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna, sé enn inni þrátt fyrr ákveðnar breytingar á honum. Þá sagði Ásmundur Einar, að afsögn Ögmundar Jónasonar sem heilbrigðisráðherra hafi sérstaklega styrkt stöðu Íslands í samningaviðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert