Efnafræðileg mengun minni en búist var við

Sigurður Reynir Gíslason safnar saman gjósku við Laufskálavörðu í hádeginu …
Sigurður Reynir Gíslason safnar saman gjósku við Laufskálavörðu í hádeginu í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

Minni efnafræðileg mengun er af gjóskunni frá Eyjafjallajökli en búist var við, segir Sigurður Reynir Gíslason, jarðfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ, sem hefur ásamt samstarfsmönnum greint sýni í dag sem þeir tóku úr hlaupunum úr Eyjafjallajökli og á Mýrdalssandi í gær.

Gígurinn með bræðsluvatninu virkar eins og efnahreinsunarstöð, segir Sigurður Reynir, og líkir þessu við umræðuna um álverin, hvort þar ætti að vera vatnshreinsun eða ekki. Þannig nær bráðið vatn að þvo mengun af gjóskunni. Þessi efni koma niður með flóðinu og fara út í sjó, og minnka þar með hættuna sem stafar af gjóskunni.

„Styrkur þessara mengandi efna, eins og flúors, sem eru vatnsleysanleg og hanga utan á gjóskunni, er því miklu minni en ella," segir Sigurður og bendir á að af þessari gjósku sé miklu minni mengun en úr Heklugosi. Það stafi af þvottinum sem verður þegar kvikan kemst í snertingu við vatn og splundrast.

Sigurður Reynir segir gjóskuna hafa sömu líkamlegu áhrifin og áður, eins og við innöndun og hvernig glerfínar og beittar agnir geta skaðað öndunar- og meltingarveg. Efnafræðileg mengun sé því minni útaf þessum þvotti uppi í gígnum.

Flúor, bróm og mangan mældist í meiri styrk en heilsusamlegt er samkvæmt neysluvatnsstaðli í þeim flóðum sem voru fyrsta daginn í Markarfljóti og Svaðbælisánni. Í seinna flóði í Markarfljóti og í flóðinu í Svaðbælisánni var einnig of mikill styrkur áls, að sögn Sigurðar Reynis, sem og of mikill járnstyrkur í flóðinu í Svaðbælisánni.

„Ál getur verið hættulegt fiskum, það er vel þekkt, ef það er í of miklum styrk. Þorskurinn er að hrygna þarna fyrir utan þannig að þetta er viðkvæmur tími. En sjórinn er það stór að um leið og vatnið frá gosinu þynnist þá ætti þetta að vera í lagi. Sjórinn er ekki eins viðkvæmur fyrir álmengun og til dæmis straumvötn," segir Sigurður Reynir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert