Búast við nýju flóði

Gríðarlegt öskufall við bæinn Þorvaldseyri.
Gríðarlegt öskufall við bæinn Þorvaldseyri. mbl.is/Golli

Almannavarnir búast við því að nýtt flóð komi í Markarfljót á næstu klukkutímum. Ekki hefur komið stórt fljóð í ána síðan í gærkvöldi, en mikill kraftur er í gosinu.

„Það er mikið líf í eldstöðinni. Gufusprengingarnar eru kröftugar og mikinn mökk leggur frá jöklinum. Við erum að fylgjast mjög vel með Gígjökli vegna þess að það er orðið nokkuð langt síðan skot kom úr jöklinum. Það er hugsanlegt að það sé orðið sírennsli í gegn, en okkur finnst ekki vera það mikið rennsli eins og er að það sé sennilegt,“ sagði Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarna.

„Það er mikill öskumökkur yfir byggðina undir Eyjafjöllum. Þetta nær frá bænum Sauðhúsavöllum og austur fyrir Skóga. Það er líka öskufall á Sólheimasandi.“

Búið er að opna fjöldahjálpastöðvar í Heimalandi, Vík og Klaustri. Víðir sagði þetta ekki gert vegna rýmingar heldur til að gefa fólki á svæðinu tækifæri til að hittast.

Búið er að skipuleggja þrjú flug vísindamanna yfir gosstöðvarnar. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur flaug yfir svæðið í morgun. Víðir sagði að mjög bjart væri við jökulinn og gott tækifæri til að leggja sjónrænt mat á eldstöðina.

Björgunarsveitarmenn eru á vakt við Þórólfsfell og fylgjast með því sem er að gerast við Gígjökul. Auk þess er fylgst með jöklinum úr vefmyndavélum. Víðir sagði að margir björgunarsveitarmenn væru á svæðinu í dag í ýmsum verkefnum.

Engir sem ekki eiga erindi fá að fara lengra en að Hvolsvelli.

Fréttatilkynning alvannavarna 17. apríl 2010  kl. 11.30

 
Ítrekað er að Eyjafjallajökull og hlíðar hans utan jökuls eru bannsvæði. Vindátt þarf lítið að breytast til að öskufall verði þar. Í öskufalli svo nálægt eldstöðinni og í hæð jökulsins er, auk mikilla áhrifa af öskunni sjálfri, mikil hætta af eldingum.  Almannavarnir vara sterklega við öllum ferðum á Mýrdalsjökul.  Jafnframt er enn er í gildi bannsvæði um 1 km í kringum eldri eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.   Öll umferð á þessu svæði er bönnuð bæði gangandi og akandi ferðamönnum.
 
Þjóðvegur 1 er lokaður við Hvolsvöll og að austanverðu er lokað við Skóga. Fljótshlíðarvegur (nr. 261) er lokaður austan við Smáratún.
Mikil umferð er nú í nágrenni Hvolsvallar.  Ólíkt því sem var í tengslum við eldgosið á Fimmvörðuhálsi er eldgosið í Eyjafjallajökli alls ekki svokallað ferðamannagos.  Gos á þessum stað er mjög hættulegt og kallar á að mögulega þurfi að grípa til ráðstafana með stuttum fyrirvara.  Aukið álag á viðbragðsaðila vegna ferðamanna er því ekki æskilegt. Gosmökkurinn sést víða að og algjör óþarfi að fara alla leið á Hvolsvöll til að sjá hann.  Það er lokað fyrir alla umferð við Hvolsvöll.  Vegna möguleika á að gripið verði til skyndirýminga er þeim tilmælum beint til ferðamanna að virða þessar lokanir og vera alls ekki á ferð innan við þær. 
 
Mikið öskufall er undir Eyjafjöllum og að Vík. Öskufall er nú við Seljaland og skyggni lélegt þar.  Ekkert öskufall hefur verið í Vestmannaeyjabæ.  Gosmökkurinn yfir jöklinum er mjög hár og sést víða að.
 
Í félagsheimilinu Hvoli á  Hvolsvelli er starfrækt upplýsingamiðstöð fyrir almenning vegna eldgossins.  Vaktir lækna hafa verið tvöfaldaðar á svæðinu og eru birgðir af lyfjum og grímum nægar.
 
Nánast allt flug yfir Mið-, Norður- og Austur-Evrópu hefur legið niðri og samkvæmt öskudreifingarspá er ekki útlit fyrir að það breytist á næstunni. Spár VAAC (Volcanic Ash Advisory Center) ná til miðnættis á morgun og ekki er gert ráð fyrir að svæðið breytist að ráði. Eldgosið hefur ekki haft áhrif á möguleika til flugs til Bandaríkjanna.
Innanlandsflug hefur gengið vel en ekki hefur verið flogið til Vestmannaeyja. Miðað við öskudreifingaspána ætti allt flug til Egilsstaða að vera með eðlilegum hætti í dag.
Á www.flugstodir.is er hægt að fylgjast með áhrifum eldgossins á flugumferð.
 
Starfshópur um áfallahjálp er saman kominn á Hvolsvelli og fundar um aðgerðir fyrir íbúa næst eldstöðinni.
 
Leiðrétting vegna fréttatilkynningar kl. 10.50:  Fjöldahjálparstöðvar hafa ekki verið opnaðar í Vík og á Kirkjubæjarklaustri.  Íbúafundur verður haldinn á Vík klukkan 3 í Leikskálum.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert