Ný staða og nýr tími

Sáttafundir hófust í Karphúsinu kl. 10 í morgun.
Sáttafundir hófust í Karphúsinu kl. 10 í morgun. mbl.is/Eggert

Áherslur SA á að reynt verði að ljúka gerð þriggja ára kjarasamnings féllu í grýttan jarðveg hjá samninganefnd Flóafélaganna á sáttafundi í dag. „15. apríl er liðinn. Það er einfaldlega komin upp ný staða og nýr tími,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.

Flóafélögin hvika ekki frá því að gengið verði frá kjarasamningi til eins árs. „Ég lít svo á að það sé fullreynt að fara þessa leið. Það hefur vantað vilja hjá SA til að fara í þriggja ára samning og þeir hafa sjálfir haft mesta vantrú á að hann væri framkvæmanlegur,“ segir Sigurður.

Hann bendir á að frá því að viðræður fóru út um þúfur um miðjan apríl hafi Samtök atvinnulífsins gengið frá kjarasamningum hjá Elkem sem sé með öðru fyrirkomulagi.

„Málið er núna í höndum sáttasemjara,“ segir Sigurður. Hann á von á að ríkissáttasemjari meti stöðuna í framhaldi af fundum með fleiri félögum og landssamböndum sem fram fara í dag í húsnæði sáttasemjara. Ekki sé orðið ljóst hvort hann boðar til funda yfir helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert