Hitamengun í lindum við Þingvallavatn

Hitamengun í lindum við Þingvallavatn jókst eftir að Nesjavallavirkjun var …
Hitamengun í lindum við Þingvallavatn jókst eftir að Nesjavallavirkjun var reist.

Eftir að Nesjavallavirkjun var tekin í notkun hefur orðið vart við hitamengun í eftirlitsholum við virkjunina og í lindum við Þingvallavatn. Þetta kom fram í máli Hólmfríðar Sigurðardóttur, umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, á opnum ársfundi fyrirtækisins í dag.

Hólmfríður sagði að umhverfismál væru eitt af mikilvægustu málum Orkuveitunnar enda væru fá fyrirtæki á landinu sem bæru eins mikla ábyrgð í umhverfismálum og Orkuveitan. Fyrirtækið legði mikla áherslu á að tryggja að það gæti áfram boðið upp á fyrsta flokks neysluvatn. Fyrirtækið þyrfti einnig að draga úr útstreymi koltvísýrings og brennisteinsvetnis frá borholum fyrirtækisins.

Affallsvatn frá Nesjavallavirkjun er bæði borholuvatn og einnig rennur frá virkjuninni upphitað vatn úr Þingvallavatni. Um helmingi borholuvatnsins er dælt niður í borholur á um 400 metra dýpi. Hinn helmingur fer í Nesjavallalæk. Á sumrin, þegar er minni eftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar, rennur upphitað grunnvatn einnig út á yfirborð.

Boraðar hafa verið um 20 eftirlitsholur við Nesjavallavirkjun til að fylgjast með mengun. Hólmfríður segir að það hafi orðið vart við hitamengun í þeim og einnig í lindum við Þingvallavatn. Hún sagði að áður en virkjunin var byggð hefði gætt jarðhitaáhrifa í lindum Þingvallavatns. Hitinn hefði hins vegar hækkað umtalsvert eftir að raforkuframleiðsla hófst við virkjunina 1998.

Hólmfríður sagði að gripið hefði verið til aðgerða sem fólu í sér niðurdælingu í borholur og eins hefði verið reistur kæliturn við virkjunina. Þetta hefði skilað nokkrum árangri, en gera þyrfti betur. Á næstu árum þyrfti að bora fleiri niðurdælingarholur og reisa annan kæliturn. Einnig hefði verið horft til þess að tengja fleiri hverfi í borginni inn á virkjunina.

Flest snefilefni sem eru í borholuvatni er undir mörkum neysluvatnsreglugerðar. Styrkur snefilefna í borholuvatni er t.d. lægra hér á landi en í borholuvatni annars staðar í heiminum, eins og t.d. í Kaliforníu.

Stærstur hluti þeirra efna sem kemur upp með gufu úr borholum er koltvísýringur sem veldur gróðurhúsaáhrifum og brennisteinsvetni sem hefur áhrif á loftgæði. Árið 2012 var útblástur koltvísýrings frá virkjunum OR 62 þúsund tonn og brennisteinsvetnis um 28 þúsund tonn.

„Brennisteinsvetnið er stærsta umhverfismál OR“

Orkuveitan hefur lagt mikla vinnu og fjármuni í að finna leið til að losna við brennisteinsvetni sem kemur upp við nýtingu jarðvarmans. Orkuveitan hefur bundið vonir við þá leið að losna við brennisteinsvetnið með því að dæla efninu niður í borholur sem boraðar eru í því skyni. Þessi aðferð hefur verið kölluð SulFix aðferð. Hólmfríður segir að tilraunir í þessa veru hafi skilað góðum árangri og kostnaður sé viðráðanlegur.

Hólmfríður sagði að Orkuveitan stæði fyrir rannsóknum á áhrifum brennisteinsvetnis á heilsu fólks, starfsmanna og þeirra sem byggju nálægt Hellisheiðarvirkjun. Einnig væri verið að rannsaka áhrif þessa á gróður.

„Brennisteinsvetnið er stærsta umhverfismál Orkuveitunnar og jarðvarmageirans. Þetta umhverfismál leysum við ekki ein og þess vegna hefur Orkuveitan óskað eftir samstarfi við HS Orku og Landsvirkjun. Sameiginlega eru fyrirtæki að þróa áfram SulFix aðferðina,“ sagði Hólmfríður.

Árið 2012 var útblástur koltvísýrings frá virkjunum OR 62 þúsund …
Árið 2012 var útblástur koltvísýrings frá virkjunum OR 62 þúsund tonn og brennisteinsvetnis um 28 þúsund tonn. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert