Árangurslausar kjaraviðræður í dag

Verkfall í framhaldsskólum heldur áfram á morgun.
Verkfall í framhaldsskólum heldur áfram á morgun. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Kjaraviðræðum framhaldsskólakennaramiðaði ekkert áfram í dag að sögn Aðalheiðar Steingrímsdóttur, formanns samninganefndar Félags framhaldsskólakennara, og mun verkfallið því halda áfram á morgun.

Hún segir það vera mjög slæmt að afraksturinn af vinnunni eftir helgina sé ekki meiri en þessi. „Það eru stór og flókin mál til umræðu og gangurinn í málinu er ekki sá sem við væntum,“ segir hún.

Viðræðum er lokið í dag en boðað hefur verið til fundar aftur klukkan tíu í fyrramálið. „Ég get ekki sagt að við séum farin að sjá til lands. Það er heilmikil vinna eftir,“ segir Aðalheiður.

Verkfallið hófst á mánudaginn í síðustu viku og hefur nú staðið í eina viku.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagðist í Sunnudegi á Rúv í dag vonast til þess að hægt væri að ná sátt í næstu viku og áréttaði það sem hann sagði í viðtali við mbl.is í upphafi verkfalls, að það sem ráðuneytið legði upp með í viðræðunum væri að gera þyrfti kerfisbreytingar og stytta framhaldsskólann til að svigrúm myndaðist hjá ríkinu til launahækkana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert