Mikill missir fyrir íslenska flugnema

Flugskólar á höfuðborgarsvæðinu harma lokun lendingarstaðarins á Kaldármelum.
Flugskólar á höfuðborgarsvæðinu harma lokun lendingarstaðarins á Kaldármelum. Þorkell Þorkelsson

Flugskólar á höfuðborgarsvæðinu mótmæla lokun lendingarstaðarins á Kaldármelum en skólarnir segjast hafa mikil not af vellinum. Eins og fjallað var um í frétt mbl.is er lendingarstaðurinn á Kaldármelum einn af þremur sem ISAVIA ohf. hyggst nú loka í sumar.

Jytte Marcher, yfirflugkennari bóklegra fræða og gæðastjóri Flugskóla Helga Jónssonar, segir áætlaða lokun hafa í för með sér mikinn missi fyrir íslenska flugnema. Hún segir völlinn mikið notaðan í svokölluðum yfirlandsflugum sem séu mikilvægur hluti af flugnáminu.

Flugfélagið Geirfugl segir völlinn mikilvægan sem öryggislendingarstað því ef ekki er unnt að fljúga í austurátt yfir Hellisheiði sökum veðurs kemur lendingarstaðurinn á Kaldármelum meðal annars til greina sem varalendingarstaður. Einnig tíðkast það hjá Geirfugli að senda nemendur sína í yfirlandsflug þangað ásamt því að þjálfa þar nemendur í mjúkbrautarlendingum. Kennarar Geirfugls segjast ekki geta notast við malarvelli á þeim vélum sem þeir kenna á og því sé völlurinn talsvert notaður af sínum nemendum.

Flugskóli Íslands hefur sent frá sér andmælabréf til ISAVIA ohf. og segir að fáir samþykktir lendingarstaðir með grasyfirborði séu í námunda við Reykjavík, því sé mikilvægt að þeim fækki ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert