„Ég fór bara að vinna“

Framganga Stefáns vakti athygli í aukafréttatíma RÚV í gær.
Framganga Stefáns vakti athygli í aukafréttatíma RÚV í gær. Skjáskot af ruv.is

„Ég var bara í Hagkaupum að versla með börnin mín,“ segir slökkviliðsmaðurinn Stefán Már Kristinsson, en myndir, þar sem hann gengur í starf sitt í Skeifunni í gær, klæddur í stuttbuxur og peysu, hafa verið áberandi í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum í gær og í dag.

Stefán Már var í fríi í gær og staddur í Hagkaupum í Skeifunni þegar eldurinn braust út. „Ég er í Skeifunni þar sem ég sé engan reyk og fer inn í Hagkaup. Er þar inni í örfáar mínútur og fæ síðan boð í símann minn um að það sé stóreldur í gangi. Ég kem út úr Hagkaupum og segi bara: „Guð minn góður“ þegar ég sé reykinn. Þetta var bara eins og eldgos.“

Stefán Már sendi börn sín, 11 og 8 ára ,heim og fór strax á staðinn. „Ég fór bara að vinna. Ég sagði börnunum bara að rölta heim, við búum nú í nágrenninu og þau réðu vel við það 11 og 8 ára gömul með pitsu í poka. Mig langaði að ná í eldgalla en það var einfaldlega ekki tími í það.“

Stefán Már var á svæðinu til klukkan hálftólf eða í um þrjá tíma. „Þetta gekk bara vel miðað við umfangið. Við hefðum viljað hafa fleiri brunahana nálægt en í heildina gekk þetta vel,“ segir Stefán Már og bætir við að það hafi verið ótrúlegt að enginn hafi slasast. „Það er eiginlega bara magnað að enginn hafi slasast í svona stórum eldi.“

Aðspurður segir Stefán Már að það hafi verið nóg fyrir hann að gera á svæðinu þrátt fyrir að vera aðeins klæddur í stuttbuxur og peysu en ekki eldgalla eins og hann er vanur. „Ég var að færa til slöngur, finna og leggja á brunahana, finna eigendur og aðra aðstandendur, ná í vatn að drekka fyrir reykkafarana og fleira. Það eru alltaf endalaus verkefni.“

Gífurlegur eldur myndaðist í Skeifunni í gær.
Gífurlegur eldur myndaðist í Skeifunni í gær. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert